„Auðvitað ætlum við okkur að gera stóra hluti og okkur langar í þennan nýja, flotta bikar,“ sagði Erna Hákonardóttir, fyrirliði Keflavíkur, fyrir undanúrslitaeinvígið við Skallagrím í Dominos-deild kvenna í körfubolta.
Fyrsti leikur einvígisins er í Keflavík í kvöld kl. 19.15. Hið unga lið Keflavíkur ætti að mæta með gott sjálfstraust í leikinn eftir fjóra sigra gegn Skallagrími í fimm leikjum í vetur, meðal annars í bikarúrslitaleiknum:
„Við þurfum að mæta með sjálfstraustið í botni til að vinna þær og munum pottþétt gera það. Þetta hafa verið hörkurimmur og við þurfum að vera tilbúnar í rosaleg átök,“ sagði Erna. „Við viljum ná upp okkar hraða og keyra þær í kaf,“ bætti hún við.
Lið Keflavíkur er ungt og ferskt en talsvert langt á eftir Skallagrími þegar kemur að reynslu leikmanna. Erna hefur reyndar orðið Íslandsmeistari með bæði Njarðvík og Snæfelli, en aðrar í liðinu eru flestar á táningsaldri. Keflavíkurkonur eru hins vegar staðráðnar í að landa öðrum stóra titli sínum á tímabilinu og verða fyrstar til að hampa nýjum og glæsilegum verðlaunagrip sem KKÍ veitir og Erna nefndi hér í upphafi.
„Eins og við höfum sýnt á tímabilinu þá erum við alveg tilbúnar að gera stóra hluti. Það skiptir ekki máli hvort við erum ungar eða gamlar, þó að reynslan hafi vissulega eitthvað að segja. Þær eru ekki hræddar við neitt þessar stelpur, tilbúnar að gera allt sem til þarf,“ sagði Erna.