Guðrún Ósk Ámundadóttir, fyrirliði Skallagríms, sér fram á jafna baráttu við Keflavík í undanúrslitum Dominos-deildarinnar í körfubolta þó að Keflavík hafi unnið fjórar af fimm viðureignum liðanna í vetur.
Keflavík vann Skallagrím meðal annars í spennandi bikarúrslitaleik í febrúar. Síðan þá hefur Skallagrímskonum ekki gengið vel á lokaspretti deildarkeppninnar og tapað 5 af síðustu 8 leikjum sínum.
„Við lentum í smámeiðslum og það var kannski smáþreyta í liðinu eftir bikarinn, enda mjög þétt spilað. En í þessum síðustu leikjum í deildinni höfum við bara verið að hvíla leikmenn og undirbúa liðið, því það var alveg ljóst að við myndum enda í 3. sæti deildarinnar,“ sagði Guðrún við mbl.is á blaðamannafundi á föstudaginn. Sjálf glímdi hún við hnémeiðsli en hefur jafnað sig af þeim.
Eins og fyrr segir hefur Skallagrímur aðeins unnið einn sigur í fimm tilraunum gegn Keflavík í vetur:
„Þetta hafa allt verið hörkuleikur nema kannski einn. Við þurfum fyrst og fremst að einbeita okkur að okkur sjálfum. Vera töffarar og mæta tilbúnar til að berjast,“ sagði Guðrún, sem fer nú með uppeldisfélagi sínu í fyrsta sinn í úrslitakeppni:
„Við höfum mikla reynslu í okkar liði þó að liðið sjálft sé vissulega í fyrsta sinn í úrslitakeppninni. Ég held að allir leikirnir verði mjög jafnir og það skiptir bara meginmáli hvort liðið vill þetta meira. Þetta verður hörkueinvígi á milli tveggja góðra liða,“ sagði Guðrún.
Fyrsti leikur einvígisins er í Keflavík í kvöld kl. 19.15.