Gamla góða hársbreiddin

Finnur Stefánsson, þjálfari KR.
Finnur Stefánsson, þjálfari KR. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Yes! Ég er gríðarlega sáttur, það er frábært að vinna þetta flotta Keflavíkurlið. Við vorum komnir í fína stöðu, misstum það niður en sýndum karakter og náðum að klára þá," sagði Finnur Stefánsson, þjálfari KR eftir 91:88 sigur á Keflavík Dominos-deild karla í Vesturbænum í kvöld. KR komst í 2:1 í undanúrslitaeinvígi liðanna með sigrinum.

Finnur fór með blaðamanni mbl.is yfir síðustu sekúndur leiksins. 

„Við klikkum úr víti sem hefði getað komið okkur þrem stigum yfir, þegar 14 sekúndur voru eftir. Þá tökum við þá ákvörðun að brjóta frekar og leyfa þeim að fá tvö víti, svo við getum tekið lokaskotið sjálfur. Hörður brennir af seinna vítinu, við setum okkar víti niður hinum megin og þeir fá svo enn og aftur víti eftir það. Þeir klikka viljandi á seinna vítinu sínu og þetta var gamla góða hársbreiddin."

Keflavík var yfir stóran hluta leiks, en Finnur segir að Jón Arnór Stefánsson hafi ráðið úrslitum í kvöld. 

„Við vorum hægir á löppunum í fyrri hálfleik, það var eins og það væri dofi yfir okkur. Við náðum að koma betur út í menn og halda þeim fyrir framan okkur í seinni hálfleik. Jón tekur svo leikinn yfir í 4. leikhluta og klárar orkupakkann sinn þá, en ég er gríðarlega ánægður með þennan sigur."

Minna fór fyrir Amin Stevens, besta leikmanni Keflavíkur í leiknum í kvöld, en í síðasta leik liðanna. Finnur segir að það hafi verið lagt upp með að stoppa hann. 

„Þetta er besti leikmaðurinn í deildinni, en Keflavík fékk flott framlag frá fimm öðrum leikmönnum. Þetta lið er ekki bara Amin og það hefur komið í ljós á undanförnum vikum og mánuðum. Þegar við lokum á hann, koma aðrir í staðinn," sagði hann við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert