KR er komið í 2:1 í undanúrslitaeinvígi sínu gegn Keflavík í Dominos-deild karla í körfubolta eftir 91:88 sigur í DHL-höllinni í Vesturbænum í kvöld. Leikurinn var stórskemmtilegur og æsispennandi.
Keflvíkingar buðu upp á sankallaða skotsýningu í fyrri hálfleik og þrátt fyrir að Amin Stevens hafi ekki verið nálægt sínu besta í fyrri hálfleiknum, var Keflavík 50:45 yfir.
Keflavík skoraði níu þriggja stiga körfur í fyrri hálfleik, en Amin Stevens skoraði aðeins sex stig í honum, sem er töluvert undir hans meðaltali. Þess í stað var Hörður Axel Vilhjálmsson að skora vel og var hann með 15 stig í fyrri hálfleik.
Hjá KR-ingum var Jón Arnór Stefánsson manna bestur í fyrri hálfleik, hann skoraði 12 stig og var auk þess bæði með flestar stoðsendingar og fráköst KR-inga. Sigurður Þorvaldsson kom einnig með gott framlag, þrátt fyrir að hafa byrjað á bekknum.
KR-ingar voru sterkari í 3. leikhluta og komust þeir yfir í fyrsta skipti síðan á fyrstu mínútunum er Þórir kom þeim í 65:63. Amin Stevens kom Keflavík hins vegar aftur yfir skömmu síðar og var staðan 68:67, Keflavík í vil fyrir síðasta leikhlutann og spennan ansi mikil.
KR skoraði þrjú fyrstu stig 4. leikhluta og komst tveim stigum yfir. Þegar sex mínútur voru til leiksloka skoraði Jón Arnór Stefánsson þriggja stiga körfu og kom KR í 78:72, sem var stærsta forskot KR í leiknum, fram að því. KR komst mest 11 stigum yfir í leikhlutanum í stöðunni 83:72.
Keflvíkingar náðu að minnka muninn í 87:86 í blálokin og fékk Hörður Axel Vilhjálmsson tækifæri til að jafna á vítalínunni í stöðunni 89:87, hann hitti hins vegar aðeins úr öðru skoti sínu og tókst KR-ingum að sigla sætum sigri í hús.
Fjórði leikurinn fer fram í Keflavík næstkomandi þriðjudag.