Erna Hákonardóttir, leikmaður Keflavíkur, er ekkert að fara fram úr sér þrátt fyrir sterkan útisigur á Snæfelli, 75:69, í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik í kvöld.
„Við verðum að byggja ofan á þetta. Þetta er bara einn sigur og við þurfum að ná í þrjá. Við þurfum að halda leikina út. Við vitum að þetta mun bara vinnast á lokasekúndunum og við höfðum það í dag,“ sagði Erna við mbl.is.
Næsti leikur er í Keflavík eftir aðeins tvo sólarhringa og því er skammt stórra högga á milli. „Við verðum að mæta tilbúnar til leiks þá,“ sagði Erna, en rætt er við hana í meðfylgjandi myndskeiði.