Úrvalsdeildarlið Tindastóls í körfuknattleik er byrjað að safna liði fyrir næstu leiktíð en á vefnum feykir.is er greint frá því að Tindastóll hafi samið við bakvörðinn Sigtrygg Arnar Björnsson um að leika með liðinu á næstu leiktíð.
Sigtryggur Arnar kemur til Stólana frá Skallagrími sem féll úr Dominos-deildinni í ár. Sigtryggur er 24 ára gamall, skoraði að meðaltali 18 stig með Borgarnesliðinu á tímabilinu og var einn besti leikmaður liðsins. Sigtryggur er ekki ókunnugur Tindastóls-liðinu en hann lék með því árið 2013.
„Mér líst mjög vel á að vera kominn aftur á Krókinn og hlakka til komandi tímabils. Það voru nokkur önnur lið búin að hafa samband við mig en mér leist best á að koma aftur í Tindastól. Ástæðan fyrir því er sú að mér líst mjög vel á bæði liðið og þjálfarann og stemninguna í kringum körfuboltann á Sauðárkróki,“ segir Sigtryggur Arnar í viðtali við feyki.is.