Keflavík náði Íslandsbikar kvenna í körfuknattleik af Snæfelli með sigri í fjórða úrslitaleik liðanna í Keflavík í kvöld. Keflavík sigraði samtals 3:1 í úrslitarimmunni og fagnaði sínum sigri í Íslandsmótinu í fyrsta skipti síðan 2013 en Snæfell hafði unnið þrjú ár í röð.
Keflavík tók frumkvæðið strax í upphafi leiks og skoraði fyrstu sjö stigin og komst fljótlega í tíu stiga forskot 12:2. Snæfell náði í raun aldrei að vinna upp þetta forskot sem Keflavík náði strax í upphafi leiks. Að loknum fyrri hálfleik var staðan 44:31.
Ungt lið Keflavíkur hélt dampi í síðari hálfleik en um tíma batnaði varnarleikur Snæfells mjög. Þá skapaðist færi fyrir Keflavík að ná að vinna upp forskotið en leikmenn liðsins hittu hins vegar afar illa í leiknum og áttu fyrir vikið aldrei almennilega möguleika á sigri. Mest náði Snæfell að minnka muninn niður í sex stig í síðasta leikhlutanum.
Á lokamínútum leiksins var spennan hins vegar ekki til staðar. Snæfell festist í 47 stigum í langan tíma og einungis þristur frá Öldu Leif Jónsdóttur þegar um mínúta var eftir skilaði þeim upp í 50 stigin í kvöld.
Keflvíkingar börðust vel fyrir sigrinum í kvöld og vinnusemin í liðinu var góð. Liðið er skipað hæfileikaríkum leikmönnum sem notið hafa velgengni í yngri flokkunum. Eftir að hafa unnið bikarmeistaratitilinn í vetur þá virðist sem spennan í kringum úrslitaleiki í meistaraflokki hafi ekki bitið á leikmennina sem eru mjög ungir að aldri. Óvenju ungir fyrir Íslandsmeistara í meistaraflokki.
Ariana Moorer skoraði 29 stig fyrir Keflavík. Thelma Dís Ágústsdóttir var með 13 stig og Emelía Ósk Gunnarsdóttir var með 12. Aaryn Ellenberg gerði 20 stig fyrir Keflavík og Bryndís Guðmundsdóttir var með 9 stig. Landsliðskonan Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði ekki stig fyrir Snæfell og á væntanlega við einhver meiðsli að stríða. Hún mun hafa tognað í upphitun.
Keflavík er tvöfaldur sigurvegari í vetur því liðið varð einnig bikarmeistari eins og áður segir. Snæfell hafnaði í efsta sæti í deildinni.