Grindvíkingar knúðu í kvöld fram oddaleik í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik. Grindavík vann KR annað skiptið í röð í Grindavík í kvöld 79:66. Liðin mætast í hreinum úrslitaleik næsta sunnudag í DHL-höllinni.
Staðan í einvíginu er 2:2 og Íslandsbikarinn mun fara á loft á sunnudaginn. KR vann fyrstu tvo leikina í Reykjavík og Grindavík en dæmið hefur nú snúist við.
Eins og í síðasta leik þá var frumkvæðið Grindvíkinga. Þeir náðu forystu í fyrsta leikhluta og höfðu fínt forskot að loknum fyrri hálfleik 42:33. Í þriðja leikhluta voru KR-ingar grimmari og tókst að jafna leikinn 50:50 en þá tók Jón Arnór Stefánsson sig til og skoraði 8 stig á fremur skömmum tíma. En Jón náði sér að öðru leyti ekki á strik í sókninni.
Mikil spenna var framan af í síðasta leikhlutanum en Grindvíkingar reyndust beittari og sterkari. Þeir börðust meira og hittu betur úr skotunum sínum. Smám saman náðu þeir góðu forskoti í lokaleikhlutanum sem varð mest sautján stig.
Lewis Clinch var stigahæstur hjá Grindavík með 21 stig og fyrirliðinn Þorleifur Ólafsson var með 16 stig. Dagur Kár Jónsson gerði 12 stig. Annar ungur leikmaður, Ingvi Guðmundsson, kom mjög ferskur inn af bekknum. Setti niður mikilvægan þrist og stal boltanum tvisvar í síðasta leikhlutanum. Frábær innkoma hjá honum.
Philip Alawoya var stigahæstur hjá KR með 19 stig, Pavel Ermolinskij gerði 16 og Jón Arnór 14 stig. Darri Hilmarsson og Sigurður Þorvaldsson fundu sig ekki í sókninni. Þá komst Þórir Guðmundur Þorbjarnarson aldrei í takt við leikinn en hann spilaði reyndar innan við tíu mínútur.