Tómas Heiðar Tómasson mun að öllum líkindum ekki spila með körfuknattleiksliði Stjörnunnar á næsta tímabili vegna anna í vinnu.
Þetta staðfesti hann við karfan.is í kvöld, en Tómas mun verða mikið erlendis vegna vinnu og ætlar að einbeita kröftum sínum í það. Hann starfar hjá fyrirtækinu Key Habits sem leikmenn og þjálfarar í efstu deildum á Íslandi hafa nýtt sér, en fyrirtækið býður upp á nokkurs konar hugarþjálfun.
Tómas kom til Stjörnunnar fyrir tveimur árum eftir að hafa áður leikið með Þór Þorlákshöfn, en hann skilaði rúmum 11 stigum og þremur fráköstum að meðaltali í leik með Stjörnunni í vetur.