Þórir Guðmundur á leið til Bandaríkjanna

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson ásamt Guðmundi Péturssyni.
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson ásamt Guðmundi Péturssyni. mbl.is/Árni Sæberg

„Jú, jú eigum við ekki bara að segja að ég hafi átt von á þessari viðurkenningu,“ sagði KR-ingurinn Þórir Guðmund­ur Þor­bjarn­ar­son við mbl.is sem í dag var útnefndur besti ungi leikmaðurinn í Dominos-deild karla í körfuknattleik á lokahófi KKÍ sem haldið var í hádeginu.

„Það var gríðarlega skemmtilegt að fá enn stærra hlutverk með liðinu í vetur og ég lagði inn mikla reynslu í bankann,“ sagði hinn 18 ára gamli Þórir Guðmundur en bakvörðurinn efnilegi skoraði 10,2 stig að meðtali í deildarkeppninni með KR-ingum í vetur. Auk Þóris Guðmundar fengu Grindvíkingurinn Ingvi Guðmundsson og Tryggvi Hlinason úr Þór Akureyri atkvæði í kjörinu sem leikmenn og forráðamenn liðanna tóku þátt í.

Það bendir flest til þess að Þórir Guðmundur spili ekki á Íslandi á næstu leiktíð.

„Ég er að stefna á að fara út í skóla á næsta tímabili. Ég er að klára prófin í skólanum hér heima og í næsta mánuði fer ég út í nokkrar heimsóknir til skóla í Bandaríkjunum. Það hefur alltaf verið stefnan hjá mér að fara út í skóla til Bandaríkjanna eftir menntaskólann og nú er það vonandi að gerast,“ sagði Þórir Guðmundur, sem hefur orðið Íslandsmeistari með KR öll þrjú tímabilin sem hann hefur spilað með liðinu.

„Þetta var alveg æðislegt tímabil og meiri háttar að fá að spila með öllum þessum körlum, ekki síst Jóni Arnóri. Nánast allir leikmennirnir sem ég spila með hafa spilað landsleiki og ungu strákarnir með unglingalandsliðunum. Gæðin á æfingunum eru því mikil. Mér finnst ég hafa bætt mig mikið sem körfuboltamaður í vetur og það hefur verið stígandi í þessu hjá mér þessi þrjú ár sem ég hef spilað með meistaraflokknum. Vonandi held ég bara áfram að bæta mig,“ sagði Þórir Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert