Skilgreiningin á alvöru stuðningsmönnum

Íslensku stuðningsmennirnir hvetja landsliðið til dáða í leiknum gegn Frakklandi. …
Íslensku stuðningsmennirnir hvetja landsliðið til dáða í leiknum gegn Frakklandi. Þjálfari franska liðsins og einn leikmanna þess sögðu stuðningsmennina stórkostlega. Skúli B. Sigurðsson

Edwin Jackson, bakvörður franska landsliðsins, þakkaði íslenskum áhorfendum fyrir að skapa stemmingu í leiknum gegn Íslendingum og hrósaði þeim í hástert. Vincent Collet, þjálfari liðsins, var á sama máli og sagði íslenska áhorfendur stórkostlega á blaðamannafundi eftir leikinn.

Íslensku áhorfendurnir áttu salinn líkt og í öðrum leikjum Íslands á mótinu, höfðu hátt og fögnuðu. Þeir nánast fylltu helming íþróttahallarinnar í Helsinki og máttu fámennir franskir áhorfendur sín lítils.

Einn spyrillinn á blaðamannafundinum sagði að íslenskir áhorfendur hefðu stolið sviðinu á mótinu í Helsinki og spurði Jackson hvernig hefði verið að spila í þessu andrúmslofti. „Satt að segja gladdi það okkur að hafa þá því að það hefði verið ansi tómlegt í salnum án þeirra,“ sagði Jackson. „Þeir eru frábærir áhorfendur, þeir eru skilgreiningin á alvöru stuðningsmönnum. Liðið þeirra er 25 eða 30 stigum undir og það skiptir ekki máli, þeir halda áfram hvetja. Þeir eru alltaf til staðar, sama á hvaða móti ég hef verið, hvort sem það var U16 landsliðið eða U18 landsliðið, það koma alltaf áhorfendur frá Íslandi til að styðja þá. Þeir eru með einhvern besta stuðningshópinn í Evrópu, engin spurning.“

Collet tók undir orð bakvarðarins. „Þeir voru stórkostlegir og þeir hafa verið stórkostlegir þrjá fyrstu leikina,“ sagði hann. „Þetta var eins á móti Grikklandi og Póllandi og við sáum þetta á fótboltamótinu í Frakklandi í fyrra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert