„Þeir gefast aldrei upp“

Martin Hermannsson sækir að körfunni með Kevin Seraphin til varnar. …
Martin Hermannsson sækir að körfunni með Kevin Seraphin til varnar. Þjálfari Frakklands hrósaði íslenska liðinu á blaðamannafundi eftir leikinn. Skúli B. Sigurðsson

Vincent Collet, þjálfari Frakka, og Edwin Jackson, skotbakvörður franska liðsins, hrósuðu íslenska liðinu í hástert á blaðamannafundi eftir leik Frakklands og Íslands í Evrópukeppninni í körfubolta í Finnlandi. „Þeir gefast aldrei upp, sagði franski þjálfarinn.

„Það er alltaf snúið að leika við lið, sem maður á að vinna, með fullri virðingu fyrir Íslandi,“ sagði Edwin Jackson, skotbakvörður franska liðsins, á blaðamannafundi eftir leik Íslands og Frakklands. „Þeir berjast í hverjum leik eins og það sé þeirra síðasti. Við sáum það í fyrri hálfleik. Þá vorum við ekki 20 eða 25 stigum yfir, heldur í jöfnum leik. Við settum aukinn kraft í vörnina í þeim seinni, vorum aðeins ákafari og höfðum sigur í þriðja og fjórða leikhluta. En þetta sýnir að við þurfum að vera tilbúnir, hver sem andstæðingurinn er. Enginn leikur er auðveldur og við þurfum að spila hvern leik af sama krafti.“

Collet byrjaði líka á að hrósa íslenska liðinu. „Fyrst og fremst vil ég óska andstæðingi okkar til hamingju,“ sagði hann. „Þeir leggja allt í leikinn vegna þess að þeir hafa ekki sömu verkfæri og önnur lið. En þeir gefast aldrei upp.“

Íslenska liðið spilaði af miklum krafti í fyrri hálfleik. Meginástæðan fyrir því að Frakkar voru yfir var hittni þeirra á vellinum. Þeir hittu úr sjö af tíu (70%) þriggja stiga skotum og 13 af 20 (65%) tveggja stiga skotum. Íslenska liðið valtaði yfir það franska í fráköstum, hafði þá tekið 22 fráköst á móti 18 fráköstum Frakka, þar af 12 í sókin á móti einu sóknarfrákasti Frakka.

„Ef við horfum á fyrri hálfleikinn var ástæðan vissulega að hluta frammistaða okkar, en þeir þetta kom líka frá þeim,“ sagði Collet. „Spilamennska þeirra var frábær í fyrri hálfleik. Jón Arnór Stefánsson átti sinn besta leik á mótinu, þeir skoruðu nokkrum sinnum þegar mikið lá við og það var góð hreyfing á liðinu. En það er erfitt fyrir þá að halda þetta út í 40 mínútur.  Leikurinn er langur, við getum skipt inn og út af bekknum allan leikinn og haldið okkar takti, jafnvel hert hann, og það gerði útslagið.“

Franski þjálfarinn kvaðst telja að íslenska liðið hefði verið farið aðeins að þreytast eftir átakið í fyrri hálfleik. „Við gátum nýtt okkur það til að ljúka leiknum,“ sagði hann.

Eftir fundinn sagði Collet að margir leikmenn íslenska liðsins hefðu staðið sig vel í leiknum. „Við þekkjum Martin Hermannsson vel því að hann leikur Frakklandi og var einn af bestu leikmönnum  í frönsku b-deildinni  á síðustu leiktíð,“ sagði hann. „Við þekkjum hann mjög vel. Við þekkjum einnig Hauk Helga Pálsson því að hann var b-deildinni í fyrra of verður með Cholet Basket næsta tímabil. Hann er mjög góður þristur/fjarki, við sáum það í upphafi móts. Ég var líka hrifinn af Kristófer Acox, mikill íþróttamaður, spilar fast. Ég get líka nefnt Hörð Axel Vilhjálmsson og Hlyn Bæringsson. Þeir spila vil, þeir spila saman og halda áfram að berjast sama hver staðan er. Mörg lið myndu gefast upp. Það er kraftur í þeim og áhorfendur þeirra eiga það skilið því að þeir eru frábærir.“

Boltinn gekk á köflum mjög vel hjá Frökkum. Collet sagði að það hefði verið markmið hans í leiknum í dag að láta boltann ganga. „Við vitum að eftir því sem líður á mótið mun varnarleikur andstæðinganna verða herðast,“ sagði hann. „Þurfum að láta boltann ganga. Við vitum að okkar leikmenn geta verið mjög góðir maður á mann, en við vitum líka að andstæðingar okkar munu ekki leyfa okkur að komast upp með slíkan leik. Þeir munu reyna að umkringja manninn með boltann og því þurfum við að slípa sendingarnar og við vildum nota þennan leik til að gera það.“

Vincent Collet, þjálfari Frakklands, hafði góð orð um íslenska liðið …
Vincent Collet, þjálfari Frakklands, hafði góð orð um íslenska liðið og sagði að leikurinn við Íslendinga sýndi að Frakkar mættu aldrei slaka, sama hver andstæðingurinn væri. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert