Þriðji sigur Slóvena

Goran Dragic, leikmaður Slóveníu, rekur boltann fram hjá Grikkjunum Georgios …
Goran Dragic, leikmaður Slóveníu, rekur boltann fram hjá Grikkjunum Georgios Printezis (t.v.) og Nick Calathes í leiknum í Helsinki í dag. AFP

Slóvenar unnu nauman sigur á Grikkjum í öðrum leik dagsins í riðli Íslendinga á Evrópumeistaramótinu í körfubolta í Finnlandi og virðast njóta sín best þegar mjótt er á munum. Slóvenar höfðu forustu í hálfleik, en í þriðja leikhluta sigldu Grikkir fram úr og leiddu með sex stigum, 52-58.

Fjórði leikhlutinn var æsispennandi og skiptust liðin á að leiða. Goran Dragic var atkvæðamikill í slóvenska liðinu, en lenti í villuvandræðum og var látinn hvíla lengi leiks með fjórar villur. En Luka Doncic reyndist fullfær um að leiða liðið meðan Dragic var utan vallar og endaði með 22 stig.

Á lokamínútunum sigldu Slóvenarnir framúr og þá reyndist Dragic, sem aftur var kominn inn á, drjúgur. Sniðskot hans þegar nokkrar sekúndur voru eftir tryggði Slóvenum fjögurra stiga sigur. Hann var með 20 stig í leiknum og fjórar stoðsendingar.

Atkvæðamestur í leik Grikkja voru Kostas Sloukas með 18 stig.

Slóvenar unnu Finna í gær í jöfnum leik og eru óvænt efstir í riðlinum og hafa unnið alla þrjá leiki sína til þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert