Tilbúnir að slást í 40 mínútur

Kristófer Acox skoraði 10 stig í fyrri hálfleik gegn Frökkum.
Kristófer Acox skoraði 10 stig í fyrri hálfleik gegn Frökkum. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Kristófer Acox, landsliðsmaður í körfuknattleik, segir að íslenska liðið muni mæta til leiks gegn toppliði A-riðilsins, Slóveníu, á EM í Helsinki á morgun með því hugarfari að vinna og innbyrða sinn fyrsta sigur þrátt fyrir slæm töp í fyrstu þremur leikjunum á mótinu.

Kristófer kvaðst gera sér grein fyrir því að verkefni morgundagsins yrði afar erfitt, enda væru Slóvenar með frábæra leikmenn.

„Ég þekki mest til Goran Dragic sem er yfirburðaleikmaður og stórstjarna í NBA. Hann er búinn að eiga rosalegt mót og hefur verið einn besti leikmaðurinn hérna. Við vitum að þetta verður afar erfitt verkefni, Slóvenar hafa unnið alla sína leiki og sigrað sterk lið sem við höfum tapað fyrir," sagði Kristófer við mbl.is eftir æfingu landsliðsins í Hartwall Arena í dag.

Kristófer sagði enn fremur að Slóvenarnir hefðu komið sér nokkuð á óvart með frammistöðu sinni.

„Já, þeir hafa reyndar komið mér á óvart. Ég átti ekki von á því að þeir yrðu svona gríðarlega sterkir en þeir eru með hörkulið. Við þurfum hins vegar að fara í leikinn til að vinna hann og ekki velta okkur uppúr því að við séum í slæmri stöðu. Þetta snýst um að fara út á völlinn og vera tilbúnir að slást í 40 mínútur. Þetta er bara einn leikur og við getum ekki gert mikið við em sem eru búnir. Þetta er bara áfram gakk, upp með hausinn og reyna að fá eitthvað út úr þessu,“ sagði Kristófer.

Kristófer Acox rennir sér fram hjá Boris Diaw, leikmanni Utah …
Kristófer Acox rennir sér fram hjá Boris Diaw, leikmanni Utah Jazz, og skorar gegn Frökkum. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Hann var mjög sáttur við frammistöðuna í fyrri hálfleik gegn Frökkum á sunnudaginn en þá var hann sjálfur í stóru hlutverki og skoraði 10 stig í góðum fyrri hálfleik þar sem Frakkar voru aðeins með sjö stiga forystu þegar gengið var til leikhlés.

„Já, það var gaman að standa svona í einu af toppliðunum í heiminum og gefa þeim svona leik í fyrri hálfleik. Því miður gekk það ekki í 40 mínútur en okkur leið mjög vel í fyrri hálfleik og sáum að við gátum alveg spilað með þeim. En þeir eru það sterkir að þeir gátu sett í annan gír í seinni hálfleik og skilið okkur eftir. Ef við náum að púsla okkur saman er ég viss um að við eigum eftir að ná í sigur í öðrum þeirra leikja sem eru eftir,“ sagði Kristófer.

Gríðarleg reynsla á fyrsta stórmóti

Hann spilaði ekki með Íslandi á EM í Berlín haustið 2015 en átti þó góða möguleika á að komast í liðið eftir að hafa spilað með því á Smáþjóðaleikunum um sumarið og æft með því. Þegar leið að mótinu varð hins vegar ljóst að Furman-háskólinn myndi ekki gefa honum leyfi til að spila í Berlín og ekkert varð af þátttöku hans þar.

Kristófer sagði að það væri gríðarleg reynsla fyrir sig að hafa tekið þátt í sínum fyrstu þremur leikjum á stórmóti í Helsinki.

„Ég hef verið í Bandaríkjunum undanfarin fjögur ár, missti af síðasta EM en fékk að kynnast þessu aðeins og vera með í undirbúningnum. Kjarninn í liðinu núna er sá sami og þá og það gekk því vel að komast inn í þetta. Það er gríðarleg reynsla að koma inn á svona stórmót og ég er að reyna að njóta þess að vera á stóra sviðinu þar sem ég spila með og á móti gríðarlega flottum leikmönnum,“ sagði Kristófer.

Hann hefur ákveðið að spila með uppeldisfélagi sínu KR á komandi keppnistímabili í stað þess að reyna að komast strax að í atvinnumennsku í Evrópu, og reiknar ekki með því að það breytist.

„Já, planið hjá mér er að spila í eitt ár á Íslandi og þetta sumar og mótið hérna hafa verið frábær undirbúningur fyrir það. Ég vissi reyndar að þar sem ég væri að fara á EM gæti eitthvað gerst og ég er auðvitað opinn fyrir því. Ef eitthvað risastórt kemur upp er samningur minn við KR á þá leið að ég get farið, en ég á ekki von á því. Ég vil koma heim, spila eitt tímabil á Íslandi og venjast því að spila evrópskan körfubolta eftir að hafa verið í allt öðruvísi körfubolta í Bandaríkjunum. Ég er algjörlega innstilltur á það,“ sagði Kristófer Acox.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka