27 stiga tap gegn Slóvenum

Ísland tapaði fyrir Slóveníu 102:75  í fjórðu og næstsíðustu umferð A-riðils Evrópumóts karla í körfuknattleik í Hartwell Arena í Helsinki. Ísland er þar með úr leik í keppninni en á einn leik eftir á morgun gegn gestgjöfunum. Slóvenía hefur unnið alla fjóra leiki sína. 

Eins og stundum áður í Helsinki lék íslenska liðið vel framan af leik. Fyrsti leikhlutinn var í raun mjög góður og þá hafði Ísland yfir 25:23 að honum loknum. En Slóvenar voru of sterkir fyrir íslenska liðið eins og Grikki, Finna og Pólverja. Slóvenía hitti úr 5 af 7 þriggja stiga skotum í 2. leikhluta. Þá skoraði liðið 37 stig og lagði grunninn að sigrinum. Sautján stigum munaði á liðunum að loknum fyrri hálfleik 60:43. 

Í upphafi síðari hálfleiks náði Ísland aldrei almennilegri rispu og Slóvenar komu sér í þægilega stöðu. Þeir tóku heldur enga áhættu og þeirra bestu menn spiluðu megnið af leiknum. Til að mynda Goran Dragic sem átti enn einn stórleikinn í mótinu og gerði 21 stig og gaf 4 stoðsendingar. 

Martin Hermannsson var stigahæstur Íslendinga með 18 stig. Hlynur Bæringsson átti sinn besta leik í mótinu til þessa. Gerði 14 stig og tók 4 fráköst. Haukur Helgi Pálsson var frábær í fyrri hálfleik og skoraði þá 12 stig og bætti tveimur við í síðari hálfleik. Elvar Már Friðriksson gerði 9 stig og Tryggvi Hlinason 8 á þeim 13 mínútum sem hann spilaði. 

Eftir leikinn er Slóvenía með 8 stig, Finnland 5, Frakkland 5, Pólland 4, Grikkland 4 og Ísland 4 stig. Síðar í dag leikur Pólland við Frakkland og Grikkland mætir Finnlandi.

Stig Íslands: Martin Hermannsson 18, Haukur Helgi Pálsson 14, Hlynur Bæringsson 14, Elvar Már Friðriksson 9, Tryggvi Snær Hlinason 8, Jón Arnór Stefánsson 6, Kristófer Acox 4, Ægir Þór Steinarsson 2.

Stig Slóveníu: Goran Dragic 21, Jaka Blazic 15, Klemen Prepelic 14, Luka Doncic 13, Edo Muric 11, Gasper Vidmar 9, Anthony Randolph 8, Vlatko Cancar 5, Matic Rebec 4, Sasa Zagorac 2.

Lið Íslands: 1 Martin Hermannsson, 3 Ægir Þór Steinarsson, 6 Kristófer Acox, 8 Hlynur Bæringsson, 9 Jón Arnór Stefánsson, 10 Elvar Már Friðriksson, 13 Hörður Axel Vilhjálmsson, 14 Logi Gunnarsson, 15 Pavel Ermolinskij, 24 Haukur Helgi Pálsson, 34 Tryggvi Snær Hlinason, 88 Brynjar Þór Björnsson.

Lið Slóveníu: 0 Anthony Randolph, 1 Matic Rebec, 3 Goran Dragic, 6 Aleksej Nikolic, 7 Klemen Prepelic, 8 Edo Muric, 11 Jaka Blazic, 14 Gasper Vidmar, 17 Sasa Zagorac, 22 Ziga Dimec, 31 Vlatko Cancar, 77 Luka Doncic.

Ísland 75:102 Slóvenía opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka