Fyrirliðinn Hlynur Bæringsson og Jón Arnór Stefánsson hafa ekki tekið ákvörðun um hvort þeir gefi áfram kost á sér í landsliðið í körfubolta. Mbl.is innti þá eftir þessu í Helsinki í kvöld þar sem þeir eru á virðulegum aldri fyrir íþróttamenn en báðir eru þeir fæddir 1982.
Aldursforsetinn Logi Gunnarsson mun áfram gefa kost á sér sem er í takti við það sem hann hefur áður sagt, þ.e.a.s á meðan hann sé að spila með félagsliði og sé heill heilsu þá sé hann tilbúinn til að hjálpa liðinu.
Hlynur og Jón sögðust reikna með því að velta ákvörðuninni fyrir sér næstu dagana enda ekki skynsamlegt að ákveða sig um leið og stórmóti lýkur þegar alls kyns tilfinningar bærast innra með mönnum.
Undankeppni HM er framundan og verður spilað í vetur bæði í nóvember og febrúar. Flækir það ef til vill ákvörðunina fyrir þá félagana en næsta úrslitakeppni EM verður ekki fyrr en 2021 og verður framvegis á fjögurra ára fresti.
Hlynur og Jón Arnór hafa verið landsliðinu óhemju mikilvægir á umliðnum árum. Jón skoraði 10 stig að meðaltali á EM og Hlynur 8 stig. Þá var Hlynur með 4 fráköst að jafnaði og 2 stoðsendingar og Jón 3 fráköst og 2 stoðsendingar.