Slóvenar sem unnu riðil Íslands í Helsinki eru komnir í undanúrslit á EM í körfubolta í Tyrklandi.
Slóvenía mætti Lettlandi í 8-liða úrslitum í kvöld en Lettar höfðu leikið virkilega vel í mótinu. Lettland vann fjóra leiki af fimm í D-riðli og vann stórsigur á Svartfjallalandi í 16-liða úrslitum.
Slóvenía sigraði 101:97 og hafði frumkvæðið lengst af en á lokamínútunum hljóp spenna í leikinn eftir að Lettland minnkaði muninn niður í eitt stig.
Stóru nöfnin stóðu fyrir sínu hjá Slóvenum eins og fyrri daginn. Ungstirnið Luka Doncic skoraði 27 stig og Goran Dragic var með 26 stig. Kristaps Porzingis skoraði 34 stig fyrir Lettland.
Slóvenía mætir ríkjandi Evrópumeisturum frá Spáni í undanúrslitum.