Haukur nýtti vítin best allra á EM

Haukur Helgi Pálsson í leik á EM.
Haukur Helgi Pálsson í leik á EM. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Haukur Helgi Pálsson er með bestu vítanýtingu allra leikmanna í Evrópukeppninni í körfubolta sem lauk í kvöld í Tyrklandi með sigri Slóveníu. 

Haukur tók sautján víti fyrir Ísland í A-riðlinum í Helsinki og hitti úr sextán þeirra. Gerir það 94,1% hittni af vítalínunni. Skemmtilegt fyrir Hauk að vera efstur í tölfræðiflokki á stórmóti. 

Næstur kom Giorgi Shermadini frá Georgíu með 93,1% hittni og Frakkinn Nando De Colo með 92,9%. Þeir tóku töluvert fleiri víti en Sermadini hitti úr 27 af 29 og Colo úr 26 af 28.

Kristaps Porzingis frá Lettlandi skoraði flest stig að meðaltali eða 23,6 stig. Martin Hermannsson var stigahæstur Íslendinga á EM eins og Morgunblaðið spáði fyrir um og var með 12,8 stig að meðaltali. Flest stig í mótinu skoraði Serbinn Bogdan Bogdanovic en hann gerði 184 í 9 leikjum og átti sinn þátt í því að Serbar komust í úrslitaleikinn. 

Litháinn Jonas Valanciunas tók flest fráköst að jafnaði í leikjum eða 12 talsins en Pavel Ermolinskij tók flest að meðaltali í íslenska liðinu: 4,4 í leik.

Sergio Rodriguez frá Spáni gaf flestar stoðsendingar og voru þær 6,8 að meðaltali í leik.
Hjá Íslandi var það Martin með 3,6 í leik.

Besta vítanýtingin 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert