Jón Arnór Stefánsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, gæti verið frá keppni næstu tvo mánuðina eða svo. Jón fór í myndatöku í gær vegna nárameiðsla sem hann varð fyrir í leiknum gegn Þór Þorlákshöfn í Meistarakeppni KKÍ. Jón tjáði Morgunblaðinu í gærkvöld að sin hefði slitnað frá sinafestu við lífbeinið.
Gert er ráð fyrir að slíkt geti tekið um það bil sex vikur að gróa. Sinin sem um ræðir var að angra Jón í sumar en rifa myndaðist í henni í vináttulandsleik gegn Belgíu á Akranesi í júlí. Jón fór varlega næstu vikurnar á eftir og náði að taka þátt í öllum fimm leikjum Íslands á EM í Helsinki. Ísland mætir Tékklandi og Búlgaríu 24. og 27. nóvember í undankeppni HM.
Jón var atkvæðamikill í Evrópuleikjunum með KR á dögunum og var því kominn í gott leikform. Nú er útlit fyrir að hann komi ekki mikið við sögu hjá Íslandsmeisturunum fyrir áramót.