Ég er í svo mikilli geðshræringu

Pétur Rúnar Birgisson stendur í ströngu í dag.
Pétur Rúnar Birgisson stendur í ströngu í dag. mbl.is/Hari

„Orð fá þessu ekki lýst, ég er í svo mikilli geðshræringu,“ sagði Pétur Rúnar Birgisson eftir 96:69-sigur Tindastóls á KR í bikarúrslitum í körfubolta í Laugardalshöll í dag. Pétur Rúnar er uppalinn hjá Tindastóli og var hann augljóslega hæstánægður. 

„Eina orðið yfir þetta er geggjað. Að gera þetta fyrir framan allt þetta fólk er magnað.“

Eins og lokatölurnar gefa til kynna var sigurinn aldrei í hættu. Tindastóll valtaði einfaldlega yfir KR. 

„Ég hefði kannski ekki búist við svona miklum mun en við komum í þennan leik til að vinna hann. Þetta er stór munur fyrir úrslitaleik á móti KR sem er búið að vera besta lið landsins síðustu 4-5 ár,“ sagði Pétur áður en hann hélt áfram. Tindastóll skoraði fyrstu 14 stig leiksins og var ljóst í hvað stefndi. 

„Við mættum með spennustigið rétt stillt. Allur undirbúningurinn og allt fólkið hjálpaði okkur. Við lögðum upp með að byrja þetta vel og við náðum því. Við náðum ekki bara að skora heldur líka stoppa þá hinum megin á vellinum, þannig kláruðum við þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert