Förum bara erfiðu leiðina

Hilmar Smári Henningsson í leiknum í kvöld.
Hilmar Smári Henningsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hilmar Smári Henningsson er ungur leikmaður Þórs Akureyri í Dominos-deildinni í körfubolta en hann kom frá Haukum í desember. Faðir hans er Henning Henningsson en hann var einn besti leikmaður landsins á sínum tíma.

Þeir feðgar stungu saman nefjum eftir leik Þórs og KR í kvöld og var sá gamli eflaust að gauka einhverjum ráðleggingum að pilti. Eftir jafnar upphafsmínútur stungu KR-ingar af og sigur þeirra var ansi stór 92:69.

Þetta var erfiður leikur fyrir ykkur og þið gáfuð helling í hann.

„Já þannig séð en mér finnst við alls ekki hafa gefið nóg. Mér finnst við eiga mun meira inni og við mættum bara ekki tilbúnir. Ég veit ekki hvað við héldum að þetta yrði og mér finnst við alls ekki hafa gefið allt sem við áttum í leikinn.“

Þið hafið alla vega sýnt það að það býr miklu meira í liðinu en þið sýnduð í kvöld.

„Já við höfum sýnt það margoft. Aðalvandamálið er að við virðumst ekki trúa á sjálfa okkur og það verður að byrja á því að ná þeirri trú áður en við förum að trúa á hver annan.“

Nú varstu að ræða við pabba þinn áðan. Hann er þvílíkur reynslubolti og getur eflaust gefið góð ráð. Hvað var hann að segja við þig?

„Ég held að það verði bara á milli okkar. Það er fínt að fá ráð frá honum og þau klikka aldrei.“

Nú ert þú tiltölulega nýkominn til liðs við Þór. Hvernig líst þér á og hvernig líður þér hér fyrir norðan?

„Mér líður bara mjög vel en eins og ég segi þá þurfum við að koma liðinu saman og þá verður þetta frábært.“  

Staða ykkar í deildinni er ekki góð og fall blasir við. Það eru þó sex leikir eftir og erfið dagskrá. Hvernig sérðu lokaslaginn fyrir þér?

„Við höfum trú á þessu. Ef hún væri ekki til staðar þá væri þetta bara kjaftæði og við þyrftum ekki einu sinni að mæta í leikina. Þetta er erfið leið sem við verðum að fara og þá förum við bara erfiðu leiðina,“ sagði Hilmar Smári að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert