Tindastóll vann mjög sannfærandi sigur á Stjörnunni, 87:67, í lokaumferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Dominos-deildarinnar, á Sauðárkróki í kvöld.
Tindastóll endar þar með í þriðja sæti deildarinnar með 32 stig, á eftir Haukum og ÍR en Stjarnan endar í sjöunda sætinu með 22 stig.
Tindastóll mætir því Grindavík í átta liða úrslitunum og Stjarnan mætir ÍR.
Leikurinn byrjaði með harðri vörn hjá báðum liðum og gekk illa að setja körfur fyrstu 5 mínúturnar. Síðan byrjuðu bæði lið að slaka aðeins á í vörninni og þá fóru þau að raða inn körfum.
Stólarnir leiddu eftir fyrsta leikhluta með 2 stigum. Í byrjun annars leikhluta settu Stólarnir átta stig í röð á Stjörnuna sem endaði með að Hrafn tók leikhlé. Eftir það gerðu Stjarnan vel og hlustuðu greinilega vel því Stjarnan náði að jafna. Lítið var dæmt af villum í fyrri hálfleik. Stólarnir leiddu í hálfleilk með aðeins fjórum stigum. Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks fékk Viðar Ágústsson hjá Tindastóli högg á nefið og fór hann útaf með fossblæðandi nef og kom hann ekkert meira inná.
Síðari hálfleikur byrjaði mjög jafn og skiptust bæði lið á körfum. Ennþá var dæmt lítið og fékk leikurinn að rúlla vel. Svo snemma í fjórða leikhluta fékk Hrafn á sig tæknivillu, við það misstu Stjörnunmennirnir hausinn, þá fóru Stólarnir að spila betri vörn og uppskáru auðveldar körfur sem gerðu þennan 20 stiga sigur þeirra.
Gangur leiksins:: 3:6, 7:6, 12:10, 19:16, 29:24, 32:29, 37:34, 40:36, 42:40, 45:42, 55:45, 63:52, 68:54, 73:59, 83:61, 87:67.
Tindastóll: Hannes Ingi Másson 13/4 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 13/7 fráköst/6 stoðsendingar, Antonio Hester 12/11 fráköst, Viðar Ágústsson 11, Helgi Rafn Viggósson 8/4 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 8, Chris Davenport 8/8 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 6/4 fráköst, Friðrik Þór Stefánsson 6, Axel Kárason 2.
Fráköst: 33 í vörn, 9 í sókn.
Stjarnan: Tómas Þórður Hilmarsson 22/8 fráköst, Róbert Sigurðsson 16, Hlynur Elías Bæringsson 8/8 fráköst, Eysteinn Bjarni Ævarsson 6, Arnþór Freyr Guðmundsson 6/4 fráköst, Darrell Devonte Combs 5, Collin Anthony Pryor 2/6 fráköst, Dúi Þór Jónsson 2.
Fráköst: 24 í vörn, 9 í sókn.
Dómarar: Ísak Ernir Kristinsson, Eggert Þór Aðalsteinsson, Halldor Geir Jensson.
Áhorfendur: 400