ÍR vann Stjörnuna 67:64 í þriðja leik liðanna í 8-liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik í Seljaskóla í kvöld. ÍR er nú 2:1 yfir í einvíginu en liðin mætast næst í Ásgarði á sunnudaginn kemur.
Rétt eins og í fyrri leikjum liðanna var körfuboltinn ekki alltaf sá fallegasti en baráttan gífurlega mikil. Töluverð læti voru í fyrri hálfleik og var þó nokkur glundroði milli leikmanna, þjálfara og dómara þegar Ryan Taylor fór harkalega í Hlyn Elías Bæringsson snemma leiks en ekkert var gefið eftir á gólfinu í kvöld.
Stjörnumenn höfðu yfirhöndina eftir fyrsta leikhluta, 17:14, en ÍR-ingar sneru taflinu við fyrir hálfleik og höfðu níu stiga forystu í hléi en Matthías Orri Sigurðarson var stigahæstur þeirra þá, með 10 stig.
Eins og fyrr í rimmu þessara liða var skipst á að eiga góða leikhluta. Stjörnumenn komu grimmir til leiks eftir hlé og skoruðu fyrstu sjö stigin í þriðja leikhluta og var leikurinn áfram í járnum. Hlynur Elías Bæringsson mun gera tilkall til að vera maður þessa einvígis, var sem fyrr öflugur með 20 stig og 17 fráköst.
Sem fyrr voru sveiflur í leiknum og fyrstu átta stig fjórða leikhluta voru ÍR-inga og munurinn þá orðinn 12 stig. Stjörnumenn reyndu allt hvað þeir gátu til að jafna metin og voru þremur stigum undir í blálokin þegar þeir fengu síðustu sóknina en vörn ÍR stóð vaktina.
Hertz Hellirinn - Seljaskóli, Úrvalsdeild karla, 22. mars 2018.
Gangur leiksins:: 3:4, 6:9, 10:15, 14:17, 19:20, 24:22, 29:27, 36:27, 38:34, 41:43, 43:45, 52:51, 61:51, 63:52, 65:60, 67:64.
ÍR: Danero Thomas 20/6 fráköst, Ryan Taylor 17/6 fráköst/7 stoðsendingar/5 stolnir, Matthías Orri Sigurðarson 13/4 fráköst, Sveinbjörn Claessen 7, Hákon Örn Hjálmarsson 4, Sæþór Elmar Kristjánsson 3/4 fráköst, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 2/6 fráköst, Kristinn Marinósson 1/4 fráköst.
Fráköst: 23 í vörn, 8 í sókn.
Stjarnan: Hlynur Elías Bæringsson 20/17 fráköst/5 stoðsendingar, Róbert Sigurðsson 13/6 fráköst, Collin Anthony Pryor 10/10 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 10, Tómas Þórður Hilmarsson 9/10 fráköst, Egill Agnar Októsson 2.
Fráköst: 26 í vörn, 19 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Ísak Ernir Kristinsson, Jóhannes Páll Friðriksson.