KR-ingar urðu í kvöld fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik. KR sigraði Njarðvík, 81:71, í þriðju viðureign liðanna í 8-liða úrslitum. Njarðvíkingar eru komnir í sumarfrí.
Heimamenn hófu leikinn af talsverðum krafti og komust fljótlega í 10:2. Kristófer Acox tróð boltanum með miklum tilþrifum og eflaust héldu einhverjir þá að KR-ingar myndu valta yfir Njarðvíkinga. Gestirnir héldu þó vel í við KR-inga sem voru þó með sex stiga forskot að loknum fyrsta leikhluta, 17:11.
Fyrri hluti annars leikhluta var ákaflega furðulegur en á tímabili leit út fyrir að leikurinn myndi fara 19:16. Liðin skiptust á að skjóta í hringinn en hvorugt lið skoraði körfu í rétt rúmar þrjár mínútur. Liðin rönkuðu við sér seinustu mínútur leikhlutans og KR-ingar náðu aftur smá forskoti og voru átta stigum yfir í hálfleik, 36:28.
Gestirnir frá Njarðvík voru mun sterkari í þriðja leikhluta, byrjuðu hann af krafti og létu KR-inga strax vita að þeir væru ekki búnir að gefast upp. Heimamenn urðu fyrir miklu áfalli snemma í leikhlutanum þegar Jón Arnór Stefánsson missteig sig en hann kom ekki meira við sögu í leiknum. KR var með eins stigs forskot, 57:56, fyrir lokaleikhlutann.
Íslandsmeistararnir voru sterkari í lokaleikhlutanum og lönduðu að lokum sigri, 81:71. KR-ingar eru þar með komnir í undanúrslit en Njarðvíkingar í sumarfrí.
DHL-höllin, Úrvalsdeild karla, 22. mars 2018.
Gangur leiksins:: 5:0, 12:2, 15:9, 17:11, 19:16, 19:20, 28:28, 36:28, 40:36, 45:42, 52:45, 57:56, 64:58, 64:64, 73:66, 81:71.
KR: Pavel Ermolinskij 24/11 fráköst/8 stoðsendingar, Darri Hilmarsson 15/5 fráköst/9 stoðsendingar, Kristófer Acox 15/13 fráköst/3 varin skot, Jón Arnór Stefánsson 13, Björn Kristjánsson 4, Vilhjálmur Kári Jensson 4, Sigurður Á. Þorvaldsson 4/8 fráköst, Kendall Pollard 2.
Fráköst: 31 í vörn, 15 í sókn.
Njarðvík: Terrell Vinson 20/8 fráköst, Logi Gunnarsson 12, Maciek Stanislav Baginski 11, Ragnar Agust Nathanaelsson 10/18 fráköst, Ragnar Helgi Friðriksson 9, Oddur Rúnar Kristjánsson 6, Kristinn Pálsson 3.
Fráköst: 26 í vörn, 12 í sókn.
Dómarar: Leifur S. Gardarsson, Rögnvaldur Hreiðarsson, Johann Gudmundsson.