Dómaranefnd KKÍ hefur dæmt Ryan Taylor, leikmann ÍR, í þriggja leikja bann fyrir brot sitt á Hlyni Bæringssyni í leik ÍR og Stjörnunnar í 8-liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik á dögunum.
Atvikið sem um ræðir er þegar ÍR-ingurinn Ryan Taylor virtist slá Stjörnumanninn Hlyn Bæringsson í höfuðið. Dómarar leiksins dæmdu óíþróttamannslega villu á Taylor.
Í reglugerð um aga- og úrskurðarnefnd kemur fram að dómaranefnd KKÍ hefur sérstakan kæru- og ábendingarrétt. Einhverjar vangaveltur meðal áhugamanna voru um hvort hægt væri að úrskurða Taylor í bann, sökum þess að dómararnir dæmdu á hann villu. Í 7. gr. reglugerðarinnar segir hins vegar „að nefndinni sé heimilt að taka til meðferðar kæru eða ábendingu á agabroti sem framið var án vitundar dómara leiksins eða dómari ekki vísað viðkomandi af leikvelli eða keppnisstað.“
Í úrskurði nefndarinnar segir svo meðal annars: „Þegar liðsmaður hins kærða gerir tilraun til að komast fram hjá sínum varnarmanni með knattraki, slær hinn kærði leikmann Stjörnunnar í hnakkann sem dettur við það í gólfið. Var höggið þungt og lá leikmaður Stjörnunnar í dágóðan tíma óvígur eftir í gólfinu. Nefndin er sammála því mati aðaldómara leiksins að þessi háttsemi hins kærða hefði átt að verðskulda brottrekstrarvillu, ef dómarar hefðu séð atvikið frá betra sjónarhorni.“
Það er því ljóst að Taylor verður ekki með þegar liðin mætast á morgun í Ásgarði en staðan í einvíginu er 2:1, ÍR í vil. Vinni Stjarnan á morgun til að halda einvíginu lifandi mun Taylor einnig missa af oddaleiknum. Fari ÍR-ingar áfram í undanúrslit verður Taylor ekki til taks í einum eða tveimur leikjum í þeirri rimmu.
Það er heldur betur um skarð fyrir skildi að ræða hjá ÍR-ingum en Taylor hefur í 25 leikjum með liðinu í vetur skilað 21 stigi, 10 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í leik.