Þjálfaraskipti í Njarðvík

Daníel Guðni Guðmundsson mun ekki þjálfa Njarðvík áfram.
Daníel Guðni Guðmundsson mun ekki þjálfa Njarðvík áfram. mbl.is/Hari

Njarðvíkingum var sópað úr 8-liða úrslitunum í Dominos-deild karla í körfuknattleik á dögunum en þeir töpuðu 3:0 í rimmu sinni gegn ríkjandi Íslandsmeisturum KR.

Nú hefur stjórn körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur ákveðið að framlengja ekki samning sinn við þjálfarann, Daníel Guðna Guðmundsson, en hann var að ljúka sínu öðru tímabili sem aðalþjálfari liðsins.

Njarðvík varð af sæti í úrslitakeppninni í fyrra en endaði í 5. sæti deildarinnar í ár áður en það steinlá fyrir KR í úrslitakeppninni. Njarðvík féll einnig úr leik í Maltbikarnum gegn KR fyrr í vetur.

Í yfirlýsingu Njarðvíkur um starfslok Daníels er honum þakkað fyrir samstarfið en ekki kemur fram hver mun taka við sem þjálfari liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert