Hörður Axel farinn til Grikklands

Hörður Axel Vilhjálmsson í leik með Keflavík í gær.
Hörður Axel Vilhjálmsson í leik með Keflavík í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Landsliðsmaðurinn Hörður Axel Vilhjálmsson er genginn í raðir gríska körfuknattleiksliðsins Kymis.  Þetta kemur fram á vefsíðu gríska körfuknattleikssambandsins.

Hörður mun leika með félaginu út tímabilið og kemur í staðinn fyrir Teddy Okereafor sem er meiddur.

Hörður hefur nýlokið keppni með Keflavík sem tapaði gegn Haukum í oddaleik um sæti í undanúrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn.

Kymis er í 7. sæti af 14 liðum í grísku deildinni þegar 20 umferðir hafa verið leiknar af 26 en eftir það leika átta efstu liðin um titilinn. Þetta er annað liðið sem Hörður spilar með á Grikklandi en hann lék með liði Trikala árið 2016. Kymis og Trikala mætast einmitt í næstu umferð, á laugardaginn.

Liðið er frá bænum Kymi á eyjunni Euboea, sem er skammt norðan við Aþenu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert