Lárus ráðinn þjálfari Þórs Akureyri

Lárus Jónsson
Lárus Jónsson mbl.is/Hari

Körfuknattleiksdeild Þórs hefur samið við Lárus Jónsson og tekur hann við af karlaliði Þórs af Hjalta Þór Vilhjálmssyni sem lætur af störfum nú á vordögum. Þetta kemur fram á heimasíðu Þórsara en Þór féll úr úrvalsdeildinni í vetur.

Lárus er Hvergerðingur og hóf sinn körfuboltaferil með Hamri. Sem leikmaður lék hann lengst af með uppeldisfélaginu, Hamri en auk þess lék hann um tíma með KR og Fjölni. 

Sem þjálfari meistaraflokks hefur hann þjálfað Hamar og nú síðast var hann þjálfari Breiðabliks í 1. deildinni en var leystur frá störfum í febrúar. Samhliða þjálfun meistaraflokks mun Lárus þjálfa drengjaflokk Þórs. 

„Þórsarar höfðu samband við mig skömmu fyrir páska og þá hófust viðræður. Já þetta leggst mjög vel í mig og ég mun taka við góðu búi af Hjalta. Það sem heillar einna mest við liðið eru allir þessir ungu og efnilegu leikmenn sem eru tilbúnir að leggja mikið á sig til þess að verða betri. Fjölskyldan stefnir á að koma í byrjun júlí og við hlökkum mikið til að upplifa nýtt ævintýri og norðlenska lognið,“ segir Lárus Jónsson í viðtali á heimasíðu Þórs en samningur hans við Akureyrarliðið er til þriggja ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert