Sigurkarl Róbert Jóhannesson kom heldur betur sterkur inní leik ÍR og Tindastóls og skilaði frábærum leik. Það kviknaði þó ekki almennilega á honum fyrr en í seinni hálfleik, eftir að sveiflukóngurinn Geirmundur Valtýsson hafði sungið fyrir áhorfendur.
Sæll Sigurkarl. Þú komst grimmur inn í seinni hálfleikinn. Var Geirmundur að kveikja í þér?
„Ég heyrði nú lítið í honum en líklega hefur hann spilað sinn þátt í þessu.Við vorum bara tilbúnir, vissum að við vorum með bakið upp við vegg og áttum ekkert val. Við bara urðum að koma til baka. Við lögðum allt í þetta en það vantaði bara eitthvað smávegis uppá. Við vorum pínu óheppnir en ég er ánægður með mína menn. Það börðust allir eins og ljón í dag.“
Þið voruð loks komnir í forustu þegar það voru fimm mínútur eftir. Vörn ykkar var að loka vel á Stólana og þeir gátu ekki skorað. Þið virtust hiksta dálítið eftir að þið komust yfir, urðuð líka ragari í sókninni. Hvað gerðist?
„Þeir fóru bara að berjast meira. Það skilaði þeim nokkrum sóknarfráköstum sem urðu okkur dýrkeypt. Við eigum ekki að láta slíkt gerast. Þar lá helsti munurinn í lokin.“
Þið eruð búnir að vera á svaka siglingu í allan vetur og verðskulduðuð svo sannarlega að vera í fjórðungsúrslitunum. Ertu sammála mér að hvert þeirra fjögurra liða sem er þar ætti skilið að vinna titilinn.
„Það er algjörlega rétt. Þessi lið eru mjög áþekk en aðeins eitt getur unnið. Við náðum okkar fyrsta markmiði að ná heimavallarétti, lentum í 2. sæti í deildinni. Menn hlógu bara að okkur en auðvitað vildum við fara lengra og það er svekkjandi að hafa ekki náð því. Nú er bara að halda sama hóp og byggja ofan á þennan vetur. Ég hika ekki með það í eina sekúndu að nú stefnum við á að gera betur. Ég, Hákon og Sæþór eru búnir að fylgja þessu liði í langan tíma og svo kemur Matthías inn í þetta. Hann er bara fæddur sigurvegari og þetta er það sem koma skal.“
Er ÍR kannski Reykjarvíkurstórveldið?
„Það er alveg klárt mál. Við erum bara komnir aftur eftir nokkur mögur ár.“
Danero Thomas kom til ykkar á miðju tímabili í fyrra eftir að hafa yfirgefið Þór á Akureyri. Hann var enginn yfirburðarmaður þar en hefur algjörlega fundið sig hjá ykkur.
„Hann sýndi það frá fyrstu æfingu að hann er enginn meðalmaður. Hann leiddi okkur áfram á meðan Ryan var ekki með. Hann er bara algjör kóngur og alls ekki síðri en Ryan. Honum líður mjög vel hjá okkur og við erum allir góðir vinir. Ef liðsandinn er góður þá geta allir spilað vel“ sagði Sigurkarl að lokum.