Grindvíkingar til umfjöllunar í St. Louis

Ingvi Þór Guðmundsson í leik á móti Tindastóli í vetur.
Ingvi Þór Guðmundsson í leik á móti Tindastóli í vetur. mbl.is/Árni Sæberg

Bræðurnir frá Grindavík, Ingvi og Jón Axel Guðmundssynir, hafa nú ratað í fjölmiðla í Missouri-ríki í Bandaríkjunum ásamt foreldrum sínum. 

Í stóru dagblaði sem dreift er um allt St. Louis svæðið er umfjöllun um Ingva í ljósi þess að hann hefur samið við háskólaliðið SLU í St. Louis fyrir næsta vetur og mun því spila körfubolta í NCAA eins og Jón Axel hefur gert síðustu tvo vetur með Davidson. 

Rætt er við þjálfara SLU, Travis Ford, í greininni og nokkuð tíðar Íslandsferðir hans. Hann hreifst af Ingva á myndböndum og kom til Íslands til að næla í unglingalandsliðsmanninn. Auk þess hafði hann veitt Jóni Axel athygli og þykir mikið til hans frammistöðu með Davidson koma. 

Ford tókst að fá Ingva til liðs við sig en í greininni kemur einnig fram að Ford hafi áður komið til Íslands í þeim tilgangi að ná í leikmann en það tókst ekki. Þar er um Tryggva Snæ Hlinason að ræða sem kaus frekar atvinnumennskuna heldur en háskólaboltann. Ford hafði raunar tvívegis áður komið til Íslands um ævina og er farinn að þekkja körfuboltann á Íslandi býsna vel sem hann segir hafa verið í mikilli sókn síðustu fimm til tíu árin. 

Í greininni kemur fram að foreldrarnir Guðmundur Bragason og Stefanía Jónsdóttir séu bæði fyrrverandi leikmenn. Blaðið hefur eftir Guðmundi að þau hafi ásamt Ingva kynnt sér skólann og liðið vel áður en ákvörðun var tekin. Þar kemur fram að Ingvi hafi haft úr fleiri skólum að velja en sé ánægður með ákvörðunina.

Blaðið telur að Ingvi geti fengið mörg tækifæri á fyrsta tímabili þar sem liðið hafi misst bakverði úr leikmannahópnum. 

Jón Axel Guðmundsson.
Jón Axel Guðmundsson. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert