KR er einum sigri frá Íslandsmeistaratitli karla í körfuknattleik eftir ótrúlegan sigur á Tindastóli, 77:75, í þriðja leik liðanna í einvíginu um titilinn á Sauðárkróki í kvöld. Brynjar Þór Björnsson tryggði KR sigurinn með ótrúlegri flautukörfu í blálok leiksins.
KR og Tindastóll höfðu mæst fimm sinnum á tímabilinu og allir leikirnir verið ójafnir. KR hafði unnið tvo leiki, með 21 og 28 stigum. Tindastóll hafði hins vegar unnið þrjá leiki, með 25, 27 og 28 stigum. Það var því algjörlega óvíst hvað biði áhorfenda í Síkinu í kvöld. Og það sem boðið var upp á var einn mesti tryllir sem sést hefur óralengi. KR vann 77:75 með lokaskoti leiksins eftir að Tindastóll hafði unnið upp tólf stiga mun á lokamínútunum.
Stólarnir voru yfir mestallan fyrri hálfleikinn. Liðin tóku bæði stuttar rispur og voru því miklar sveiflur á stigatöflunni. KR komst tvívegis einu stigi yfir í hálfleiknum en það forskot entist varla nema tíu sekúndur í hvort skipti.
Staðan eftir fyrsta leikhlutann var 23:22 fyrir Tindastól. Eftir hann var Pétur Rúnar Birgisson aðeins með tvö stig. Hann sallaði svo niður körfum í öðrum leikhlutanum og skoraði fjórtán stig. Stólarnir leiddu áfram og höfðu stemninguna með sér eftir svakalega troðslu Chris Davenport. KR var ekkert að láta slíkt taka sig úr jafnvægi og þeir héldu sínum agaða leik. KR sótti mikið undir körfuna og skoraði mest þar. Staðan í hálfleik var 45:41 en honum lauk með afar furðulegri þriggja stiga körfu frá Pétri Rúnari. Einn áhorfandi orðaði það þannig að hann hefði þurft að fara heim að skipta um brók í hálfleik eftir þetta skot Péturs Rúnars. Athygli vakti að Pavel Ermolinskij var stigalaus í hálfleik en hann var þó með sex stoðsendingar.
Þriðji leikhlutinn var keimlíkur hinum tveimur lengi vel. Stólarnir voru yfir og um miðjan hálfleikinn var staðan 54:46. KR svaraði og jafnaði um hæl og komst svo yfir 56:59 og 59:65 en þannig stóð fyrir lokaleikhlutann. Vörn KR-inga var svakaleg á þessum kafla og Tindastóll komst ekkert áleiðis. Á sama tíma hirtu KR-ingar öll fráköst og fengu ófá stig eftir sóknarfráköst.
KR hafði svo leikinn í hendi sér langt fram í lokaleikhlutann en Tindastóll kom til baka og minnkaði muninn í eitt stig þegar stutt var eftir. Kristófer Acox fór þá undir körfuna og skoraði stig sem hefðu átt að klára þetta. Pétur Rúnar var á öðru máli og jafnaði með þriggja stiga körfu, 75:75 þegar 24,3 sekúndur voru eftir. KR var að brenna skotklukkunni sinni en Brynjar Þór Björnsson náði erfiðu skoti á flautunni og setti það ofaní.
Það er nú ljóst að á laugardag getur lið KR tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn. Ef það tekst ekki verður hreinn úrslitaleikur á Sauðárkróki þriðjudaginn 1. maí.