Verður súrsætt hvernig sem fer

Systurnar Helena Sverrisdóttir og Guðbjörg Sverrisdóttir
Systurnar Helena Sverrisdóttir og Guðbjörg Sverrisdóttir mbl.is/Golli

Hjónin Sverrir Hjörleifsson og Svanhildur Guðlaugsdóttir eru í óvenjulegri stöðu í kvöld en dætur þeirra, Helena og Guðbjörg Sverrisdætur, mætast í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik í Schenker-höllinni að Ásvöllum þegar Haukar og Valur eigast við.

Helena og Guðbjörg hafa verið í stórum hlutverkum með liðum sínum í þessu úrslitaeinvígi en það ræðst í kvöld hvor systirin stendur uppi sem Íslandsmeistari.

„Titillinn endar hjá fölskyldunni hvernig sem leikurinn fer í kvöld,“ sagði Sverrir í samtali við mbl.is í dag.

„Maður hefur svona aðeins breytt um skoðun eftir því sem komið hefur inn í seríuna. Helena er búin að vinna þetta áður en Guðbjörg hefur heldur betur stigið upp og það yrði alveg stórkostlegt ef Valur myndi standa uppi sem Íslandsmeistari. Haukahjartað myndi þá blæða en hvernig sem úrslitin fara verður þetta súrsætt.

„Við hjónin verðum í Haukastúkunni eins og alltaf og munum klappa þegar við á. Leikirnir í einvíginu hafa unnist á heimavelli og draumurinn er sá að úrslitin ráðist með lokaskotinu í leiknum. Það ganga svona létt skot á milli þeirra Helenu og Guðbjargar. Þær eru saman á hverjum degi og eðlilega er spenna hjá þeim eins og okkur öllum í fjölskyldunni,“ sagði Sverrir.

Svanhildur Guðlaugsdóttir og Sverrir Hjörleifsson ásamt syni sínum, Kristjáni Leifi …
Svanhildur Guðlaugsdóttir og Sverrir Hjörleifsson ásamt syni sínum, Kristjáni Leifi Sverrissyni sem leikur með Haukum. Ljósmynd/facebook

Í úrslitaeinvíginu hefur Helena skorað að meðaltali 20 stig, tekið 10,5 fráköst og gefið 11 stoðsendingar en Guðbjörg hefur skorað að meðaltali 17 stig, tekið 7 fráköst og gefið 3 stoðsendingar.

Haukar hafa þrívegis orðið Íslandsmeistarar 2006, 2007 og 2009 en Valur hefur aldrei áður leikið til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn.

Flautað verður til leiks í Schenker-höllinni klukkan 19.15 og verður fylgst með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert