Sveinbjörn Claessen, reyndasti leikmaður ÍR, í Dominos-deildinni í körfuknattleik, hefur ákveðið að láta gott heita eftir þrettán ár í meistaraflokki.
Sveinbjörn er þó ekki nema 32 ára gamall en gömul hnémeiðsli eru farin að taka sinn toll að hans sögn. Sveinbjörn sleit krossband í báðum hnjám 2009 og 2011. ÍR hafnaði í 2. sæti í deildinni í vetur og komst í undanúrslit Íslandsmótsins en tapaði þar fyrir Tindastóli 3:1. Var það besti árangur þessa sigursæla félagsi í áratug.
Sveinbjörn varð bikarmeistari með ÍR árið 2007 en síðan þá hefur ÍR ekki unnið stóran titil í körfunni. Útlit er fyrir að allir leikmenn úr því liði séu hættir, í efstu deild í það minnsta, en Ómar Örn Sævarsson tilkynnti á dögunum að hann væri hættur hjá Grindavík.
„Þegar ég sleit krossband árið 2009 þá stóð ÍR við allt gagnvart mér þótt ég hefði ekki spilað nema þrjá leiki það tímabil. Ekki má gleyma umhverfinu í samfélaginu á þessum tíma, kreppan og allt sem henni fylgdi. Sjálfur var ég í háskólanámi og munaði um minna að félagið stóð við sitt. Það var ekki sjálfsagt mál eins og viðraði á þessum tíma. Ég sleit aftur árið 2011 og þá var samningnum einfaldlega rift af minni hálfu. Ég er ekki í nokkrum vafa um að félagið hefði staðið við samninginn gagnvart mér en þetta er sú leið sem ég fór. ÍR-ingar höfðu gert nóg og fyrir það var ég þakklátur,“ segir Sveinbjörn.
Sjá ítarlegt viðtal við Sveinbjörn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag