KR-ingurinn Kristófer Acox sankaði að sér verðlaunum á lokahófi KKÍ sem haldið var í Laugardalshöllinni í hádeginu.
Kristófer var valinn leikmaður ársins, varnarmaður ársins og var að sjálfsögðu valinn í lið ársins. Þá var Kristófer á dögunum valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar í Dominos-deildinni en framlag hans í úrslitakeppninni átti stóran þátt að KR varð Íslandsmeistari fimmta árið í röð.
„Það var mikið af góðum leikmönnum í deildinni sem spiluðu mjög vel svo það var ekkert í hendi að ég yrði fyrir valinu sem leikmaður ársins. Ég náði að finna annan gír eftir áramótin og toppaði í úrslitakeppninni. Við vissum að við ættum mikið inni. Úrslitakeppnin er önnur keppni og þá náðum við flestir að sýna okkar rétta andlit. Hvað næsta tímabil varðar er nokkur óvissa. Það eru nokkrir leikmenn á síðustu metrunum en það kæmi mér samt ekkert á óvart ef flestir héldu áfram,“ sagði Kristófer við mbl.is eftir að hafa tekið á móti verðlaunum sínum.
Hvað með framhaldið hjá þér og KR?
„Ég er að sjálfsögðu að hugsa út í það að spila erlendis en ég hef góðan tíma til að skoða þau mál með umboðsmanni mínum. Eins og er þá er ég bara enn að fagna Íslandsmeistaratitlinum. Ég fékk á dögunum boð um að fara til liðs í efstu deild á Ítalíu og klára tímabilið með því. Það hitti illa á og ég ákvað að hafna því. Eins og staðan lítur út í dag þá eru líkurnar meiri heldur en minni að ég spili erlendis á næsta tímabili. Ég held öllu opnu og ég mun skoða þá möguleika sem eru í boði í sumar,“ sagði Kristófer.