Körfuboltamaðurinn Jón Arnór Sverrisson er genginn til liðs við uppeldisfélag sitt Njarðvík á nýjan leik og hefur samið við félagið um að leika með því á næsta keppnistímabili.
Jón Arnór er tvítugur bakvörður en hann lék með Hamri í 1. deildinni á nýliðnu tímabili og fór með liðinu í úrslitaeinvígi við Breiðablik um sæti í úrvalsdeildinni. Hann hóf tímabilið með Keflvíkingum og lék fimm leiki með þeim í úrvalsdeildinni áður en hann færði sig um set yfir til Hveragerðis. Áður hafði Jón Arnór leikið með meistaraflokki Njarðvíkur frá 2015.