Strákarnir neðstir eftir þriðja tapið

Sveinbjörn Jóhannesson og Sigurkarl Róbert Jóhannesson í baráttunni gegn Ítalíu …
Sveinbjörn Jóhannesson og Sigurkarl Róbert Jóhannesson í baráttunni gegn Ítalíu á EM í dag. Ljósmynd/FIBA

U20 ára landslið karla í körfuknattleik tapaði þriðja og síðasta leik sínum í A-deild Evrópumeistaramótsins sem fram fer í Þýskalandi um þessar mundir.

Strákarnir okkar kepptu við Ítalíu í dag og biðu lægri hlut, 81:56, í nokkuð einhliða leik. Ítalirnir unnu fyrstu þrjá leikhlutana sannfærandi áður en þeir slökuðu á klónni í þeim fjórða og síðasta sem Íslendingunum tókst að vinna með fjórum stigum.

Jón Arnór Sverrisson var stigahæstur íslenska liðsins með 11 stig en á eftir honum kom Sigurkarl Jóhannesson með sjö stig. Bjarni Jónsson tók sex fráköst og þeir Jón Arnór, Hákon Hjálmarsson og Arnór Hermannsson voru allir með þrjár stoðsendingar hver.

Ísland tapaði fyrsta leiknum gegn sterku liði Serba, 107:60, og svo öðrum leiknum gegn Svíþjóð, 91:64. Serbar vinna því riðilinn og á eftir þeim koma Ítalir, Svíar og að lokum Íslendingar í neðsta sæti.

Þetta þýðir að Ísland mætir toppliði C-riðils í 16-liða úrslitunum. Allar líkur eru á að það verði Þýskaland, sem nægir að vinna sigur á botnliði Rúmeníu í riðlinum. Nái þýskir ekki að vinna þann leik, mæta Íslendingarnir annaðhvort Ísrael eða Grikklandi sem keppast innbyrðis í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka