„Ég vildi prófa eitthvað nýtt,“ sagði körfuknattleiksmaðurinn Emil Barja eftir að hann skrifaði undir tveggja ára samning við Íslandsmeistara KR í Frostaskjóli í dag. Emil hafði þar áður verið hjá uppeldisfélagi sínu, Haukum, allan sinn feril.
„Ég var í Haukum frá því ég var sex ára og í sama umhverfinu. Það var kominn tími á að gera eitthvað annað og stíga út fyrir þægindarammann.“
Hann segir það vissulega hafa verið erfitt að kveðja uppeldisfélagið en að sama skapi er hann spenntur fyrir nýrri áskorun.
„Að láta strákana og stjórnina vita hefur verið hrikalega erfitt en svo er ég auðvitað bara spenntur að byrja hjá KR. Það er spennandi að fá að vera hluti af þessu nýja liði hjá KR. Það hafa leikmenn farið og nýir komið inn og svo nýr þjálfari að auki. Ég er spenntur fyrir framhaldinu.“
Haukar urðu deildarmeistarar á síðustu leiktíð og var Emil lykilmaður í liðinu sem tapaði að lokum fyrir KR í úrslitaeinvíginu. Emil segir KR-inga kunna það manna best að sigra og vonandi lærir hann af þeim í Vesturbænum.
„Ég hef ekkert unnið enn þá og veit ekki hvernig það virkar, vonandi lærir maður það hér. Þessir KR-ingar kunna þetta samt og vonandi kemst maður inn í þeirra kúltúr.“
Að lokum telur hann að það verði erfitt í fyrstu að klæðast treyju KR.
„Það verður mjög skrítið og mun eflaust taka smá tíma að venjast því, ég hef verið í rauðu alltaf, en þetta verður gaman.“