ÍR vann sinn fyrsta sigur í Dominos-deild karla í körfuknattleik þegar liðið heimsótti Hauka í Hafnarfjörðinn en leiknum lauk með 18 stiga sigri ÍR, 84:66.
Breiðhyltingar byrjuðu leikinn betur og náðu snemma tíu stiga forskoti. Haukum tókst að minnka þann mun niður í fjögur stig um miðbik 2. leikhluta en þá settu Breiðhyltingar aftur í gír og leiddu þeir með 9 stigum í hálfleik.
ÍR-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn af jafn miklum krafti og þann fyrri á meðan Haukarnir voru alltof seinir í gang og í lok þriðja leikhluta var munurinn orðinn sextán stig. Haukarnir reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en þeir áttu aldrei möguleika í kvöld enda bæði sóknar- og varnarleikur liðsins slakur.
Marques Oliver var stigahæstur í liði Hauka með 12 stig, 9 fráköst og 3 stoðsendingar og næstur á eftir honum var Kristinn Marínósson með 10 stig og 6 fráköst. Gerald Robinson var stigahæstur í liði ÍR með 23 stig, 15 fráköst og tvær stoðsendingar. Justin Martin skoraði 19 stig í liði ÍR og tók 8 fráköst.
Þetta var fyrsti sigur Breiðhyltinga í deildinni í vetur og er liðið er komið í sjötta sæti deildarinnar með 2 stig en Haukar eru í áttunda sætinu, líka með 2 stig.