Nýr þjálfari kominn til Skallagríms

Ari Gunnarsson, fyrrverandi þjálfari Skallagríms.
Ari Gunnarsson, fyrrverandi þjálfari Skallagríms. mbl.is/Kristinn Magnússon

Serbinn Bijana Stankovic hefur verið ráðin þjálfari kvennaliðs Skallagríms í körfuknattleik en frá þessu er greint á heimasíðu félagsins.

Stankovic tekur við Skallagrímsliðinu af Ara Gunnarssyni sem var sagt upp störfum hjá félaginu á dögunum.

Í færslu á heimasíðu Skallagríms segir:

„Meistaraflokksráð kvenna hefur ráðið Biljönu Stanković sem nýjan þjálfara meistaraflokks kvenna. Biljana er 44 ára gömul og er frá Serbíu. Hún hefur síðustu ár þjálfað yngri flokka hjá Kris Kros Pancevo í Serbíu og þá hefur hún verið aðstoðarþjálfari hjá yngri kvennalandsliðum Serbíu með frábærum árangri.

Bijana Stankovic.
Bijana Stankovic. Ljósmynd/Skallagrímur

Hún átti glæsilegan leikmannaferil og á að baki fjölda titla með félagsliðunum sem hún lék með, m.a. Hemofarm, Partizan og Radivoj Korać. Þá á hún yfir 100 landsleiki með Serbíu og var fyrirliði liðsins í sjö ár og lék með því á Evrópumóti og heimsmeistaramóti. Biljana lagði skóna á hilluna fyrir tveimur árum og hefur einbeitt sér að þjálfun síðan og menntað sig í þeim fræðum í heimalandi sínu.

Biljana kemur til landsins á fimmtudaginn og stýrir Skallagrími í sínum fyrsta leik gegn Stjörnunni á útivelli á laugardaginn. Meistaraflokksráð lýsir yfir ánægju sinni með ráðninguna og býður Biljönu velkomna í Borgarnes.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert