Karlalið Hauka í Dominos-deildinni í körfuknattleik leitar nú væntanlega að bandarískum leikmanni til að styrkja leikmannahópinn. Félagið hefur í það minnsta ákveðið að láta Bandaríkjamanninn Marques Oliver fara.
Bragi Magnússon, formaður körfuknattleiksdeildar, staðfesti þetta þegar Morgunblaðið leitaði eftir því í gærkvöldi.
Oliver er miðherji og skoraði 20 stig að meðaltali fyrir Hauka og tók tæp 12 fráköst að meðaltali. Hann hefur hins vegar ekki spilað síðustu leiki liðsins efitr að hann varð fyrir meiðslum. Lék hann síðast 23. nóvember og var sárt saknað þegar Haukar voru slegnir út úr bikarkeppninni síðasta sunnudag af Vestra. Bragi sagði Hafnfirðinga vera að líta í kringum sig varðandi eftirmann Olivers.