Martin Hermannsson landsliðsmaður í körfuknattleik hefur að mestu jafnað sig af meiðslunum sem hann varð fyrir í byrjun nóvember og spilar í kvöld sinn fyrsta leik með Alba Berlín frá þeim tíma.
Martin meiddist á ökkla í Evrópuleik með Alba en meiðslin urðu líka til þess að hann gat ekki leikið með íslenska landsliðinu gegn Belgíu í forkeppni Evrópumótsins í lok nóvember.
„Ég er ekki alveg orðinn 100 prósent heill en verð betri með hverjum degi sem líður. Ég er enn sem komið er aðeins búinn að vera á þremur alvöru æfingum með liðinu og veit ekki hvort þjálfarinn ætli að nota mig eitthvað að ráði í kvöld. En það er talsvert um meiðsli í hópnum hjá okkur, leikstjórnandinn Peyton Siva meiddist í gær og er úr leik í þrjár til sex vikur, framherjinn Luke Sikma er líka tæpur fyrir leikinn í kvöld og svo er Kaninn sem var fenginn til að leysa mig af farinn aftur frá félaginu," sagði Martin við mbl.is í dag.
„Ég er annars undirbúinn fyrir allt í kvöld. Þjálfarinn hefur ekkert sagt mér ennþá hvað hann er að hugsa varðandi mína þátttöku í leiknum," sagði Martin sem var í stóru hlutverki hjá Alba frá byrjun keppnistímabilsins og þar til hann meiddist. Hann kom til liðs við Alba Berlín í sumar eftir að hafa leikið með Chalons-Reims í frönsku A-deildinni síðasta vetur.
Alba er í öðru sæti þýsku A-deildarinnar, hefur unnið átta af fyrstu tíu leikjum sínum, og tekur í kvöld á móti Giessen sem er í sjöunda sætinu með sex sigra og fimm töp en átján lið skipa deildina. Næsta fimmtudag spilar Alba síðan gegn Mónakó á heimavelli í sextán liða úrslitum Evrópubikarsins en þar er um riðlakeppni að ræða og fyrstu umferðina af sex á því stigi keppninnar.
„Félagið leggur mikla áherslu á að ná langt í Evrópubikarnum svo ég var dálítið hissa á að vera valinn í hópinn fyrir leikinn í kvöld, sem verður erfiður. En kannski ætlar þjálfarinn að reyna að gefa mér nokkrar mínútur í þeim leik til að koma mér í gang á ný," sagði Martin Hermannsson.