Kominn aftur í hringiðuna

Axel Kárason.
Axel Kárason. mbl.is/Árni Sæberg

Toppliðið í Dominos-deild karla, Tindastóll, hefur fengið liðsauka á miðju keppnistímabili en þar er á ferðinni kunnuglegt andlit í Skagafirðinum.

Axel Kárason, fyrrverandi landsliðsmaður, hefur ákveðið að taka fram skóna og leika með liðinu síðari hluta vetrarins. Axel tilkynnti í sumar að hann myndi taka sér frí frá körfuknattleiksiðkun en útilokaði ekki að byrja aftur í janúar ef eftirspurnin yrði til staðar.

„Ég hef ekki átt meira samtal við Israel Martin (þjálfara) um mitt hlutverk heldur en bara það hvort hann vildi að ég kæmi aftur. Við sjáum til hvernig þetta þróast. Ég kem inn í þennan hóp og reyni að finna eitthvert hlutverk þar sem ég get hjálpað til. Það skiptir ekki öllu máli heldur að þetta verði gaman á hverjum degi,“ sagði Axel þegar Morgunblaðið spjallaði við hann.

Axel verður 36 ára í febrúar en segist vera ágætlega á sig kominn líkamlega enda hefur það sjaldnast verið vandamál hjá honum. Þótt Axel geri ekki mikið úr endurkomu sinni þá ætti hann að styrkja vörnina hjá Tindastóli verulega auk þess sem það orð fer af Axel að hann sé sterkur persónuleiki og maður liðsheildarinnar.

„Ég saknaði boltans og saknaði þess að vera í hringiðunni. Það er skemmtilegt að vera hluti af hópi sem reynir að skara fram úr. Ég fann aðeins fyrir því að lífið var kannski fullrólegt fyrir áramót. Eftir öll þessi ár í meistaraflokki þá var það orðið normið að spila körfubolta. Ég þurfti samt sem áður að einbeita mér að öðrum verkefnum í lífinu í smástund og það gekk vel,“ sagði Axel sem var kominn í meistaraflokkshópinn hjá Tindastóli þegar liðið lék til úrslita á Íslandsmótinu gegn Njarðvík árið 2001.

Sjá allt viðtalið við Axel í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert