Komu fram við mig eins og ég væri rusl

Vinson í leik með Grindavík.
Vinson í leik með Grindavík. Ljósmynd/Bjarni Antonsson

Bandaríski körfuboltamaðurinn Terrell Vinson kom fyrst til Íslands fyrir síðasta tímabil til að leika með Njarðvík. Vinson gekk vel og líkaði dvölin á Íslandi svo hann tók samningstilboði Grindavíkur um að leika með liðinu á þessu tímabili. 

Vinson gat hins vegar aðeins leikið tvo leiki fyrir Grindavík, þar sem hann meiddist alvarlega í útileik gegn Skallagrími strax í 2. umferð. Var ljóst um leið að meiðslin voru alvarleg. Eftir myndatöku kom í ljós að Vinson væri með slitið krossband í vinstra hné. 

Vinson segir í ítarlegu viðtali við mbl.is að viðbrögðin frá körfuknattleiksdeild Grindavíkur í kjölfar meiðslanna hafi vægast sagt verið hörmuleg. Vinson var rekinn frá Grindavík 12. október, daginn eftir leikinn við Skallagrím. Síðan þá hefur félagið ekkert viljað gera fyrir hann.  

Um leið og ég meiddist fór allt til fjandans

„Þetta var ekki það slæmt til að byrja með hjá Grindavík. Ég var spenntur að fá að spila með liðinu og þjálfa yngri flokkana. Stuðningsmennirnir tóku vel á móti mér og stjórnin virtist spennt að fá mig og mér leið vel.

Ákveðnir hlutir voru hins vegar ekki alveg eins og þeir áttu að vera. Þeir keyptu íbúð, en ég þurfti að búa í bílskúr á meðan hún var gerð klár, þótt við hefðum gert sérstakt samkomulag um að ég myndi ekki þurfa að búa í bílskúr, ég vildi það alls ekki og sagði þeim það. Þá fékk ég svör um að það væri ekkert sem þeir gætu gert,“ byrjaði Vinson. 

„Ég fékk bíl, sem var fínt, en bíllinn var ekki góður. Hann var keyrður meira en 250.000 kílómetra. Hann var ömurlegur í hálku og ég var oftar en einu sinni mjög nálægt því að lenda í slysi. Ég lét forráðamennina vita um leið. Ég bað um nýrri bíl, þar sem ég var líka að þjálfa yngri flokka. Þeir hlustuðu ekki á það og sögðu að bíllinn yrði að duga. Um mánuði síðar var bíllinn algjörlega ónýtur.

Þá fór ég að átta mig á að hlutirnir væru ekki alveg eins og þeir áttu að vera utan vallar. Innan vallar var þetta í lagi. Jói þjálfari er góður og liðsfélagarnir tóku mér opnum örmum. Um leið og ég meiddist fór allt til fjandans og það hratt. Það var hætt að koma fram við mig eins og manneskju,“ rifjar Bandaríkjamaðurinn upp. 

Vinson bar Jóhanni Þór Ólafssyni vel söguna.
Vinson bar Jóhanni Þór Ólafssyni vel söguna. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það var eins og ég færi úr því að vera manneskja í þeirra augum og í eitthvert rusl sem mátti brenna og losa sig við. Ég meiddist 11. október og daginn eftir mætti formaðurinn heim til mín og rak mig á staðnum. Það var mikil óvissa sem fylgdi. Ég hafði ekki hugmynd um hvort félagið myndi standa með mér í gegnum meiðslin og hjálpa mér að fá meðferð við þeim.

Umboðsmaðurinn minn reyndi hvað hann gat til að fá svör frá stjórninni varðandi næsta skref. Ég fór ekki í myndatöku fyrr en þremur vikum eftir að ég meiddist. Ég hitti ekki lækni fyrr en 1. nóvember og þá gátum við loksins tekið ákvörðun um hvenær ég gæti farið í aðgerð. Þetta var allt saman ótrúlega lengi að gerast.“

Vinson var hent út úr íbúðinni sinni um leið og Grindavík samdi við þá Lewis Clinch og Tiegbe Bamba um að koma í stað hans. 

Var bannað að þrífa herbergið mitt

„Þeir fengu tvo nýja leikmenn þegar ég meiddist og þegar sá síðari samdi var mér hent út úr íbúðinni minni um leið. Ég var fluttur á lélegt hótel með engum ofni eða ísskáp. Þú vilt ekki búa á svona hóteli. Þeir vildu að nýi leikmaðurinn kæmi sér vel fyrir. 

Ég spurði þá hvort ég gæti fengið mat í gegnum félagið í staðinn, þar sem ég væri ekki með eldhús og ég væri ekki lengur að fá útborgað. Ég þurfti að spara pening og ég gat ekki farið að kaupa mat tvisvar á dag á meðan ég var að glíma við þessi meiðsli og launalaus í þokkabót. Ég fékk eina fría máltíð á dag, auk 2-3 aukamáltíða á meðan ég var á hótelinu. Ég var á hótelinu í tíu daga. 

Ég fékk svo skilaboð frá þeim 9. nóvember og mér var sagt að yfirgefa hótelið. Mér var sagt að ég þyrfti að borga fyrir hótelið sjálfur ef ég vildi vera þar áfram. Þeir voru orðnir mjög erfiðir við mig og báðu m.a starfsfólk hótelsins um að hætta að þrífa herbergið mitt. Kannski kostaði það aukalega að láta þrífa herbergið. Þetta var erfitt því ég var ekki með þvottavél og gat ekki þrifið fötin mín, rúmfötin eða handklæðin,“ sagði Vinson, en hann fór til Þýskalands að hitta Kelvin Lewis, fyrrverandi leikmann Hattar, eftir ævintýrið á hótelinu. 

„Ég þurfti aðeins að komast í burtu frá þessu og fá andlegan styrk fyrir aðgerðina. Framkoma félagsins var farin að hafa mikil áhrif á mig og ég þurfti smá tíma í burtu frá þessu öllu. Ég borgaði fyrir flugið og allt sjálfur og sem betur fer átti ég vin sem var tilbúinn að taka á móti mér.“

„Þann 3. desember fer ég svo loksins í aðgerðina í Reykjavík. Félagið sagði mér bara að taka leigubíl fram og til baka, frá Grindavík til Reykjavíkur. Ég var ekki í neinu ástandi til að bíða eftir leigubíl eftir svona stóra aðgerð því ég var mjög ringlaður. Sem betur fer sótti Ása, starfsmaður Grindavíkur, mig og keyrði mig heim eftir aðgerðina. Hún var mjög hjálpsöm, en það er ekki hægt að segja um stjórnina hjá Grindavík.“

Aðstaðan sem Grindvíkingar úthlutuðu Vinson til að jafna sig eftir …
Aðstaðan sem Grindvíkingar úthlutuðu Vinson til að jafna sig eftir aðgerðina. Ljósmynd/Aðsend

„Eftir aðgerðina vantaði mig stað til að vera á. Félagið fann ógeðslegan stað í Grindavík eftir aðgerðina og ég fékk ekkert. Mér var bannað að taka leigubíl til og frá sjúkraþjálfara og mér var sagt að taka strætó. Ég var á annarri löppinni og átti að taka strætó frá Grindavík til Reykjavíkur. Ég held ég hafi þurft að taka fjóra strætóa bara til að komast í sjúkraþjálfun og leggja af stað eldsnemma. Að lokum fór ég að taka leigubíl og félagið hefur borgað eitthvað af þeim. Ég endaði svo á að gista hjá vinafólki í Hafnarfirði í staðinn fyrir staðinn sem félagið bauð mér. Enn og aftur var ég heppinn að eiga vini sem voru til í að hjálpa mér.“

Stjórnin fór að ljúga upp á mig

„Stjórnin var farin að reka á eftir mér að fara heim á þessum tímapunkti, en ég sagði þeim að ég þyrfti ekki að fara neitt. Læknirinn var meira að segja búinn að banna mér að ferðast, þar sem ég var með mögulega sýkingu í hnénu. Ég vil vera áfram á Íslandi og klára endurhæfinguna því hún er rándýr heima í Bandaríkjunum og ég hreinlega hef ekki efni á henni, þar sem ég er ekki með vinnu. Það er erfitt að vinna á meðan ég er að glíma við þessi meiðsli. Ég er því launalaus og þarf að borga leigu, það gengur ekki upp.

Á einhverjum tímapunkti fór stjórnin að ljúga upp á mig og sagði að ég væri ekki að taka endurhæfingunni alvarlega. Hún vildi nota það gegn mér. Það er ekkert nema lygi. Ég hef alltaf mætt í sjúkraþjálfun, myndatökur og viðtöl með læknum. Eini tíminn sem ég missti af var með lækninum og það var vegna þess að tveir læknistímar voru skráðir á sama tíma. Við fundum annan tíma í staðinn mjög fljótlega á eftir. Félagið reyndi að láta mig líta illa út og kenna mér um allt.“

Er í raun og veru heimilislaus

„Ég fékk einn mánuð borgaðan eftir meiðslin og ég fékk útborgunina áður en það var komin dagsetning á aðgerðina. Ísland er fallegt og mér líkar vel að vera hérna, en ég bý ekki á stað sem ég get kallað heimilið mitt. Ég er í raun og veru heimilislaus og stjórnin er ekki að styðja neitt við bakið á mér. Ég flakka á milli húsa eins og er.“

Terrell Vinson í leik með Njarðvík.
Terrell Vinson í leik með Njarðvík. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég fékk að gista heima hjá leikmanni Grindavíkur á meðan hann var í Bandaríkjunum um hátíðirnar að hitta fjölskylduna. Félagið var ekki hrifið af því og reyndi að henda mér út. Þeir þurfa bókstaflega að henda mér út til að ég fari eitthvað. Maður sættir sig ekki við hvað sem er. Svona á ekki að koma fram við fólk. Ég hef oftar en einu sinni reynt að funda með stjórninni, en hún vill það ekki. Ég vil bara fá að vita hvað tekur við hjá mér.

Ég verð að geta lifað áfram þótt ég meiðist. Þeim er hins vegar alveg sama hvað verður um mig. Þeim er sama þótt mér líði illa því þeir vilja bara losna við mig. Það myndi ekki breyta neinu fyrir þá ef ég væri úti á götu að betla. Þeir segjast ekki vera skyldugir til að hjálpa mér. Þeir ættu að setja sig í mín spor. Ef einhver myndi koma svona fram við þá, væru þeir ekki sáttir. Ef þetta kæmi fyrir börnin þeirra, myndu þeir láta í sér heyra. Ég er barn einhvers, hvort sem ég er 28 ára, sextugur eða sjötugur. Ég sagði ömmu minni frá því sem ég lenti í og hún varð mjög reið.“

Terrell Vinson segir forráðamenn Grindavíkur ekki koma fram við sig …
Terrell Vinson segir forráðamenn Grindavíkur ekki koma fram við sig eins og manneskju. Ljósmynd/Jóhann Ingi

Vinson segir svona meðferð ekki þekkjast annars staðar í atvinnumennsku í körfubolta.  

„Ég hef talað við leikmenn sem hafa meiðst alvarlega á Spáni, Lúxemborg, Finnlandi og auðvitað Bandaríkjunum og það hefur enginn lent í því sem ég er að lenda í. Þar er leikmönnum hjálpað. Það eru allir sem ég hef talað við sammála um að þetta sé röng framkoma. Það var leikmaður í Þýskalandi sem meiddist sama dag og hann fékk að vera áfram hjá félaginu sínu og honum var hjálpað. Ég nenni ekki að fara með þetta mál í réttarsal. Ég vil bara einbeita mér að því að jafna mig og einn daginn spila körfubolta á ný.“

Hefur lent í ýmsu en þetta er það versta

Hann segir ekki koma til greina að fara frá Íslandi núna og heim til Bandaríkjanna, því þá væri hann einfaldlega að gefast upp. 

„Ef ég færi heim til Bandaríkjanna væri ég að gefast upp og ég er ekki þannig manneskja. Það væri allt of auðvelt fyrir Grindvíkingana ef ég færi núna. Það tekur nokkra mánuði til viðbótar að jafna sig á þessum meiðslum og ég vil gera það á Íslandi. Ég er klár í þann slag, en það er erfitt að vera að slást við Grindavík á sama tíma.“

Vinson segist hafa lent í ýmsu í gegnum tíðina, en þetta sé það allra versta. 

„Ég hef lent í ýmsu í gegnum tíðina en þetta er það versta. Ísland vill ekki vera þekkt fyrir hluti eins og þetta. Að færa sér í nyt að einhver sé útlendingur og fara illa með hann. Fólki á Íslandi er annt um hvert annað,“ sagði Terrel Vinson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert