Katalónar hlúa að Kára

Kári Jónsson í leik með landsliðinu.
Kári Jónsson í leik með landsliðinu. mbl.is/Árni Sæberg

„Ekki er hægt að segja nákvæmlega til um hvenær ég verð leikfær en maður reynir að gera sem mest í endurhæfingunni. Ég þurfti að bíða nokkuð til að leyfa beininu og örinu að gróa. Ég vonast eftir því að geta farið að æfa af krafti eftir tvær vikur eða svo en þá kemur í ljós hvernig fæturnir bregðast við,“ sagði Kári Jónsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, þegar Morgunblaðið tók púlsinn á honum.

Tveir mánuðir eru liðnir síðan Kári fór í aðgerðir á báðum fótum og er nú í endurhæfingu í Barcelona en hann er samningsbundinn Katalóníustórveldinu. Kári segir að læknar og sjúkraþjálfarar hafi búist við því að hann yrði frá keppni í alla vega þrjá mánuði en aðgerðirnar voru framkvæmdar í lok nóvember.

„Ég er nú kominn á það stig að geta hlaupið og fæ að skjóta aðeins á körfuna. Ég er látinn prófa mig smám saman áfram en þetta er þolinmæðisvinna, sérstaklega þar sem um báða fætur er að ræða. En þetta gengur nokkuð vel og ég er á áætlun og mögulega aðeins á undan henni.“

Hafði slæm áhrif á hásinina

Kári varð í raun ekki fyrir meiðslum heldur þurfti að grípa inn í vegna vaxtar hælbeins. Hann æfði og spilaði kvalinn síðasta haust en beinið var farið að hafa áhrif á hásin. Ef ekkert hefði verið gert hefði ferill hans í körfuboltanum orðið stuttur.

„Tekið var af hælbeini sem nuddaðist utan í hásinina og olli bólgum og verkjum. Var í raun beint fyrir aftan hásinafestina. Einnig var fjarlægð sin neðst í hásinafestunni en það er nokkuð merkilegt að mér skilst að ég þurfi ekki á henni að halda. Með þessu er búið að létta álaginu af hásinni auk þess sem hreinsað var í kringum þetta svæði en ekkert var í raun gert við hásinina sjálfa. Var þetta gert á báðum fótum og var nauðsynlegt. Sársaukinn var það mikill.“

Sjá allt viðtalið við Kára í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert