„Þetta er það sem ég lifi fyrir“

Nikolas Tomsick stendur vaktina er ÍR-ingurinn Hákon Örn Hjálmarsson sækir …
Nikolas Tomsick stendur vaktina er ÍR-ingurinn Hákon Örn Hjálmarsson sækir að honum í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Nikolas Tomsick, leikmaður Þórs Þ., var sigurreifur eftir að hafa skorað sigurkörfuna í 96:95-sigri á ÍR í Breiðholtinu í Dominos-deildinni í körfuknattleik í kvöld.

Tomsick setti niður magnaða þriggja stiga körfu þegar örfáar sekúndur voru til leiksloka og vonast Króatinn til að stór sigur sem þessi geti hjálpað liðinu að komast á skrið.

„Eftir erfiða byrjun í vetur áttum við svona leik, þar sem við náðum stórum sigri undir lokin og það kom smá sigurgöngu af stað hjá okkur. Við áttum slæman leik síðast [gegn Stjörnunni] og byrjuðum ekki vel í dag en sýndum svo karakter.“

„Ég er stoltur af liðinu, við fengum stórleik frá öllum leikmönnunum okkar og það er þeim að þakka að við fengum færi til að vinna leikinn.“

Þetta var ótrúlegt lokaskot, fimm sekúndur eftir með stóran mann í þér. Þetta virtist hálfvonlaust færi frá mínu sjónarhorni.

„Þetta er það sem ég æfi stanslaust og það sem ég lifi fyrir. Ef ég klúðra svona skoti þá tek ég afleiðingunum en liðsfélagarnir og þjálfararnir hafa trú á mér, það gerir svona augnablik auðveld.“

„Við erum gott lið. Við höfum barist og átt fullt erindi í öll lið sem við höfum mætt, hvort sem við höfum svo unnið og tapað. Ef við höldum svona áfram munum við toppa á réttum tíma, í úrslitakeppninni, og ég tel að Þór verði lið sem fólk vill ekki mæta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert