Bandaríkjamaðurinn Brandon Rozzell var valinn maður bikarúrslitaleiksins þegar Stjarnan sigraði Njarðvík 84:68 í úrslitum Geysis-bikarkeppninnar í Laugardalshöll í dag. Rozzell skoraði 30 stig og var brattur þegar mbl.is tók hann tali.
„Þetta var frábær upplifun enda erum við gott lið og hér ríkir hálfgerð fjölskyldustemning. Leikirnir í undanúrslitum og úrslitum voru báðir erfðir. Þetta var allt annað en auðvelt og við þurftum að berjast fyrir þessu. Ég er þakklátur fyrir tækifærið. Ég var mjög hrifinn af því hvernig stuðningsmenn okkar stóðu við bakið á okkur í dag. Í hvert skipti sem við virtumst vera að tapa forystunni þá náðu þeir að halda okkur gangandi þegar á þurfti að halda. Ég þakka þeim fyrir stuðninginn og stuðningsmenn Njarðvíkur geta einnig verið stoltir af sinni framgöngu,“ sagði Rozzell sem kom til Stjörnunnar í upphafi árs. Allt virðist ganga upp hjá liðinu eftir að hann bættist við leikmannahópinn því Stjarnan hefur nú unnið fjórtán leiki í röð í deild og bikar.
„Ástin er mikil í liðinu,“ sagði Rozzell og brosti en bætti við á alvarlegri nótum. „Við erum bara með eitt markmið og það er að vinna. Öllum er sama um tölurnar hjá einstaklingunum. Það skiptir ekki máli hvort ég skori 30 stig eða einhver annar á meðan við vinnum leikina. Þegar hópur leikmanna er tilbúinn til að vinna saman og hlusta á þjálfarann þá eru möguleikarnir endalausir,“ sagði Rozzell ennfremur við mbl.is.