Hlynur Bæringsson, landsliðsfyrirliði í körfubolta, hefur ákveðið að leikur Íslands við Portúgal í Laugardalshöll á fimmtudagskvöld verði hans síðasti landsleikur.
Þar með gefst körfuboltaáhugafólki tækifæri til að kveðja tvo af dáðustu leikmönnum í sögu íslenska landsliðsins á fimmtudaginn því áður var ljóst að Jón Arnór Stefánsson myndi spila sinn 100. og síðasta landsleik. Hlynur mun leika sinn 125. landsleik.
Síðasti landsleikur Hlyns!
— KKÍ (@kkikarfa) February 18, 2019
Hlynur Bæringsson, landsliðsfyrirliði, hefur ákveðið að leika sinn 125. og sinn síðasta landsleik gegn Portúgal í Höllinni hér heima á fimmtudaginn.
Fjölmennum og kveðjum Hlyn og Jón Arnór!
Miðasala á Tix:is: https://t.co/B9xAFyeqni#korfubolti pic.twitter.com/NZ8PZipQkL
Hlynur var aðeins 17 ára þegar hann lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Makedóníu, árið 2000, en hann var á þeim tíma leikmaður Skallagríms í Borgarnesi. Hlynur kom inn á í þrjár mínútur í leiknum og tök tvö fráköst. Líkt og Jón Arnór hefur Hlynur farið með íslenska landsliðinu tvisvar í lokakeppni EM, árin 2015 og 2017.