Benedikt Guðmundsson verður í dag kynntur sem nýr þjálfari kvennalandsliðs Íslands í körfubolta, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Benedikt tekur við starfinu af Ívari Ásgrímssyni sem hætti í nóvember.
Samningur Ívars við KKÍ rann út þegar undankeppni EM lauk í nóvember og tilkynnti Ívar þá að hann væri hættur. Hannes S. Jónsson sagði þá við Morgunblaðið að KKÍ myndi taka sér góðan tíma í að ráða arftaka hans, sem nú er fundinn.
Benedikt er þrautreyndur þjálfari sem nú stýrir kvennaliði KR en hann kom liðinu upp í úrvalsdeild í fyrra án þess að það tapaði leik, og hefur verið með það í toppbaráttu í allan vetur. Meðal afreka hans má nefna Íslandsmeistaratitla með kvennalið KR árið 2010 og karlalið félagsins 2007 og 2009.