Ásta Júlía Grímsdóttir, leikmaður deildar- og bikarmeistara Vals í körfuknattleik, er á leið til Bandaríkjanna næsta vetur og mun ekki spila með Valsliðinu.
Valur greinir frá þessu í dag, en þar kemur fram að Ásta Júlía sé á leið vestur um haf til náms og mun leika með háskólaliði HBU frá Houston frá og með næsta tímabili. Liðið er í efstu deild bandaríska háskólaboltans.
Ásta Júlía er fædd árið 2001 og hefur verið síðastliðnar tvær leiktíðir á Hlíðarenda eftir að hafa komið frá KR. Hún var með 8,8 stig og 7,3 fráköst að meðaltali í leik í Dominos-deildinni í vetur.