Lovísa gengur til liðs við Hauka

Lovísa Björt Henningsdóttir í leik með Marist háskólaliðinu.
Lovísa Björt Henningsdóttir í leik með Marist háskólaliðinu. Ljósmynd/Marist

Kvennalið Hauka í körfuknattleik hefur fengið gríðarlega góðan liðsstyrk fyrir næstu leiktíð en Lovísa Björt Henningsdóttir hefur ákveðið að snúa heim frá Bandaríkjunum og spila með sínu gamla félagi á næstu leiktíð.

Lovísa hefur undanfarin fimm ár verið í Bandaríkjunum þar sem hún hefur spilað með Mar­ist háskólaliðinu undanfarin fjögur ár og hefur átt góðu gengi að fagna með því.

„Ég sem við Haukana til eins árs en stefnan er svo að fara til Evrópu að spila. Ég er búin að vera í sambandi við nokkra umboðsmenn og hef rætt við félög í Þýskalandi en þegar Haukarnir höfðu samband þá fannst mér ég ekki geta neitað þeim. Það verður gaman að koma heim og spila eftir fimm ára dvöl í Bandaríkjunum,“ sagði Lovísa Björt í samtali við mbl.is í kvöld en hún er væntanleg til landsins eftir útskrift í Marist háskólanum í næsta mánuði.

„Ég hef öðlast gríðarlega reynslu að spila í bandarísku háskóladeildinni. Í þessari deild eru að spila við stelpur sem eru miklu sterkari og betri en ég hef spilað á móti heima á Íslandi,“ sagði Lovísa Björt, sem verður 24 ára gömul á þessu ári. Hún hefur spilað með öllum yngri landsliðunum og verið viðloðandi A-landsliðið og hefur verið valin í það nokkrum sinnum en fékk ekki leyfi frá háskólaliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert